131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Það fer að verða árviss viðburður í svartasta skammdeginu á aðventu að Alþingi Íslendinga sjái sig knúið til að taka á dagskrá málefni sparisjóðanna. Það var fyrir réttu ári síðan fyrir tilverknað tveggja hv. þm., Einars Odds Kristjánssonar og Lúðvíks Bergvinssonar, sem Alþingi Íslendinga setti á stofn björgunarsveit til þess að forða því að örfáir einstaklingar settu sparisjóðina í raun á hvolf og tækju út úr þeim fjármuni sem þeir áttu ekki. Nú virðist sama sagan vera að endurtaka sig.

Ég velti því hér upp, herra forseti, hvort þörf sé á því enn á ný að þverpólitísk björgunarsveit þingmanna setjist yfir það verkefni í efnahags- og viðskiptanefnd að fara yfir málið, ofan í kjölinn, og tryggja það að þessi nýja árás á sparisjóðina, á fé sem er sannarlega ekki í eigu stofnfjáreigenda eða þeirra aðila sem fara þar í forustu, verði hrifsað út úr þeim. Ég hvet þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd til að taka það mál upp að eigin frumkvæði enda var um það rætt fyrir réttu ári að málinu væri ekki lokið og að menn mundu gaumgæfa það áfram.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, herra forseti, að ég hef ásamt átta öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram frumvarp sem lýtur að þessum atriðum og varðar það að sparisjóðum sé gert að tryggja að öllum viðskiptamönnum sparisjóðs á ákvörðunardegi um stofnfjáraukningu verði gefinn kostur á að koma þar að. Það mundi a.m.k. tryggja að ekki yrðu örfáir einstaklingar handvaldir af forustumönnum sparisjóðanna sem kæmu þar að verki. Ég vek athygli á því að þeir sparisjóðir eru til þar sem stofnfé er eingöngu 0,3% af fleiri milljarða eign viðkomandi sparisjóða.

Svona gengur þetta ekki lengur, herra forseti, og enn á ný lifum við það að viðskiptaráðherra lætur sem ekkert sé. Hún lét sem ekkert væri í fyrra og það var ekki fyrr en þingmenn tóku í taumana sem skikk var komið á málin og mér sýnist allt ætla að fara á sama veg enn þann dag í dag.