131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:06]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tók fram við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins úr fjárlaganefnd að ég teldi að það væri í rauninni ekki tækt til meðferðar og var andvígur því að það væri afgreitt þannig út. Það skorti bæði umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um tekjuhlið frumvarpsins og um forsendur fjárlaganna, sérstaklega tekjuforsendurnar, auk þess voru þar veigamiklir málaflokkar sem væri ljóst að fengu ekki fjárveitingar miðað við lögbundin verkefni þeirra. Þetta tók ég fram við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins úr nefnd. Sama staðan er enn uppi.

Nú hefur komið fram í umræðunni hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar að hann hefur ítrekað að forsendur fjárlagafrumvarpsins væru mjög breyttar nú frá því sem var í haust og skýrsla Seðlabankans er notuð sem grundvöllur þess málflutnings. Ég er alveg sammála hv. varaformanni fjárlaganefndar.

Eins og ég rakti í ræðu minni þá tel ég að þær harkalegu aðgerðir sem Seðlabankinn er að grípa til, gríðarlegra vaxtahækkana, komi mjög hart niður á útflutningsgreinunum og efnahagslífinu í landinu, enda lætur það ekki á sér standa að gengið er komið í 115 og dollarinn í 63 kr. En í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir gengisvísitölu 125 þannig að þarna er aldeilis mikill munur á. Ég tel því eðlilegt og nauðsynlegt að fjárlagafrumvarpið fari aftur til fjárlaganefndar og við fáum fulltrúa Seðlabankans á fund nefndarinnar til að ræða á hvaða forsendum þeir grípa til svona aðgerða. Við vitum að verið er að bregðast við þessum fáránlegu skattalækkunartillögum ríkisstjórnarinnar sem passa engan veginn inn í ríkjandi efnahagsástand. En hefur ekki Seðlabankinn einhverjar aðrar aðgerðir til að grípa til? Ég hef nefnt áður í umræðunni og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson endurtók það að hér að Seðlabankinn hefur líka bindiskyldumöguleikana, þ.e. að taka fé úr umferð frá bönkunum. Síðustu áramót lækkaði Seðlabankinn bindiskylduna úr 4 í 2% og hleypti tugum milljarða peninga þar með í umferð. Seðlabankinn hefur því ýmis önnur úrræði.

Væri ekki líka ráð að Seðlabankinn og fjárlaganefnd, Alþingi, ræddust við um stöðu efnahagsmála og aðgerða í efnahagsmálum og fjármálum. Eins og nú horfir fer ríkissjóður einn veg með skattalækkunum, Seðlabankinn annan veg með því að grípa til vaxtahækkana, (Forseti hringir.) hækkunar gengis með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir atvinnulífið í landinu. (Forseti hringir.) Ég tel, herra forseti, að frumvarpið eigi aftur að fara til fjárlaganefndar til nánari vinnslu áður en það kemur til lokaafgreiðslu.