131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:09]

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég átti því miður ekki kost á að vera við 2. umr. fjárlaga. Ég var erlendis á vegum þingsins. Ég hef hlustað með athygli í dag á stjórnarliða og aðra ræða um fjárlög. Einnig hef ég hlustað með athygli á það sem hefur komið fram núna eftir dæmalausir aðgerðir Seðlabankans frá því í gær og nýjustu tölur af gengisvísitölu sem voru rétt að berast í þennan sal — ég hafði nú ekki skoðað fjölmiðla í dag eða fréttamiðla á netinu — um að gengisvísitalan sé komin niður í 115 stig. Það sýnir hvers konar — ég ætla að sleppa að nota það orð sem kemur upp í huga minn um þessar aðgerðir Seðlabankans sem greinilega eru stefna í þveröfuga átt við það sem hér hefur verið fjallað um.

Virðulegur forseti. Í forsendum fjárlaga er talað m.a. um að í spánni sé gengið út frá því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir stig af stigi í 7,5% fram til ársins 2006. Nýjasta ákvörðun gerir það að verkum að þeir eru nú komnir í 8,25%. Hvað á þá að gera á þeim tíma sem er fram undan til 2006? Á að hækka þetta enn meira? Eiga stýrivextir að fara upp í 10–11% eða hvernig endar þetta?

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt og óska eftir því fyrir hönd þingflokks Samfylkingar — ég vona að ég tali alveg skýrt — að gert verði hlé á þessari umræðu, fundi verði frestað og boðað verði til funda með formönnum þingflokka og forseta þingsins til að ræða það sem hér er komið fram og hefur verið borið fram af fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað um að spá Seðlabankans og margt það sem þar var að gerast í gær fari í þveröfuga átt miðað við það sem hér hefur verið talað um, þ.e. að full ástæða sé til að taka þetta fjárlagadæmi upp strax áður en ríkisstjórnin pakkar því inn í glansumbúðir, jólapappír núna rétt fyrir jól sem verður ekki pappírsins virði.

Virðulegi forseti. Eitt í viðbót sem rök fyrir þessu. Á sama degi og við ræðum fjárlög við 3. umr., og það á að klára þær umræður og við eigum að samþykkja fjárlög á morgun, þá er dreift frumvarpi til laga um afnám laga um Tækniháskóla Íslands þar sem fjármálaráðuneytið segir að það kosti um 130–150 millj. á næsta ári. Virðulegi forseti. Af hverju er þetta ekki komið inn í breytingartillögur vegna fjárlaga? Á núna að samþykkja fjárlög á morgun með svona vitleysisgangi? Hér er frumvarp komið fram sem eykur útgjöld ríkissjóðs. Er meira í pípunum, virðulegi forseti?

Þess vegna ítreka ég það að í 23. gr. þingskapa er veitt heimild fyrir því að hægt sé að vísa máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað. Ég vil því ítreka enn einu sinni fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar að hlé verði gert á þessum fundi til að þingflokksformenn geti átt fund með forseta til að ræða þá stöðu sem komin er upp.