131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir það afar miður að hæstv. forsætisráðherra skuli þverskallast svo við eða neita að viðurkenna að verið sé að vega að sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands með þeim ráðstöfunum sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu varðandi fjárveitingar til hennar. Ég spyr: Er hæstv. forsætisráðherra svo skyni skroppinn að hann upplifi þetta ekki á sama hátt og þeir erlendu aðilar sem hafa verið að senda okkur þingmönnum bréf síðustu daga og mótmæla þessu? Þá er ég að tala um norsku mannréttindastofnunina sem hefur aðsetur við háskólann í Ósló, finnsku mannréttindastofnunina sem hefur aðsetur í háskólanum í Åbo, Raoul Wallenberg-stofnunina og fleiri sem allar geta um það að þessar ráðstafanir vegi að sjálfstæði Mannréttindaskrifstofunnar. Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra skilji þetta og skilji það líka að til þess að Mannréttindaskrifstofan komi og eigi viðræður við þá tvo ráðherra sem hann nefndi þá vil ég benda á að það hefði verið eðlilegra að ráðherrarnir hefðu haft samráð við Mannréttindaskrifstofuna um þetta ráðslag.