131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:42]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gat rétt aðeins um samskipti stjórnarandstöðu við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, sem er mín persóna. Þannig var að haldinn var fundur í efnahags- og viðskiptanefnd á mánudegi um umsögn til hv. fjárlaganefndar varðandi tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Þá kom að máli við mig hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og gat þess að það mætti nú kannski skoða betur forsendur þeirrar tekjuhliðar. Því miður tókst ekki á þeim stutta tíma að taka þær athyglisverðu athugasemdir til greina og það er ætlan mín, ef ég verð enn þá í þessu embætti, að skoða það á næsta ári.

Hins vegar féllst ég á það góðfúslega og með miklum og góðum vilja að skoða álit Seðlabankans og skýrslu hans sem birtist núna í gær. Það var gert. Ég skil því ekki alveg að ég hafi ekki brugðist með velvild við þessu.

Svo er það sem hv. þingmaður sagði um fjárlögin. Nú þykir það gott að hafa fjárlögin afgreidd snemma til þess að allir geti búið sig undir það, þjóðfélagið, opinberar stofnanir o.s.frv. Þess vegna togast það á við það hvort við viljum hafa allar nýjustu upplýsingar í fjárlögunum, t.d. þessa spá Seðlabankans, t.d. nýrri spár, og hvort við eigum að afgreiða, eins og var hérna í eina tíð, fjárlögin á Þorláksmessu eins og gerðist þegar verst var.

Ég tel betra að fjárlögin séu afgreidd fyrr þannig að allir megi vita að þetta sé vilji löggjafarvaldsins og fjárlagavaldsins og þess vegna verðum við að ganga út frá þeim forsendum sem þekktar eru þegar það er samþykkt. Skýrsla Seðlabankans lá ekki fyrir.