131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:25]

Þuríður Backman (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til 3. umr. fjárlagafrumvarp fyrir 2005. Sá þáttur í starfi þingsins sem vegur hvað þyngst á haustþinginu er vinnan að gerð fjárlaga. Hér hafa margir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar lýst vinnubrögðum fjárlaganefndar og komið með margar athugasemdir við störf hennar. Ég tel mikilvægt að Alþingi taki tillit til þeirra athugasemda og skoði þær með opnum hug. Með því að bera vinnubrögðin saman við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar gætum við séð hvort ástæða er til að endurskoða vinnuferli fjárlaganefndar við fjárlagagerðina og aðkomu þingsins að þessu mikilvæga máli.

Athugasemdirnar eru margvíslegar. Ég ætla ekki að telja þær allar upp en, hæstv. forseti, ég tel margar þeirra það alvarlegar að okkur beri að athuga mjög vandlega hvort breytt vinnubrögð, vinnuferlið sem slíkt, muni ekki geta bætt áreiðanleikann við lokaafgreiðslu þessa máls.

Ég vil taka undir þá beiðni sem komið hefur fram, að miðað við skýrsluna sem Seðlabankinn birti í gær um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum, verðbólguhorfur til næstu tveggja ára, sé full ástæða til að gera hlé á umræðum um fjárlögin við 3. umr. fjárlaga og vísa málinu aftur til fjárlaganefndar sem færi yfir forsendur fjárlaga miðað við þær upplýsingar.

Forsendurnar eru í skýrslu Seðlabankans allt aðrar en þær sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Þótt minni hluti fjárlaganefndar, stjórnarandstaðan, fái engu um það hnikað þá tel ég að það mundi a.m.k. sýna ákveðna ábyrgð að fara yfir málið í fjárlaganefnd með tilliti til breyttra forsendna.

Eins og komið hefur fram í dag og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti kannski hvað skýrast eru forsendur fjárlaganna brostnar. Ég tel eins og fleiri að mikilvægt sé að endurmeta fjárlagafrumvarpið með tilliti til verðbólguspár Seðlabankans. Okkur liggur ekki svo á að afgreiða frumvarpið í kvöld eða á morgun. Við höfum næstu viku fyrir okkur til að greiða atkvæði um málið. Ég tek undir það að það sé lágmarkskrafa að fjárlaganefndin fari aftur yfir frumvarpið.

Eins og fram kemur í upphafi greinar um nýja þjóðhagsspá Seðlabankans hafa verðbólguhorfurnar til lengri tíma versnað töluvert. Ég ætla að nefna nokkrar ástæður sem tilgreindar eru í því sambandi, m.a. stóriðjuáformin. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa beint úr greininni:

„Stóriðjuáformin hafa enn færst í aukana, á sama tíma og aðgangur almennings að lánsfé hefur orðið mun greiðari en áður og vextir verðtryggðra húsnæðisveðlána til langs tíma lækkað.“

Frú forseti. Það var fyrirséð að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar mundi steypa öllu um koll í efnahagsmálum, ruðningsáhrif framkvæmdanna yrðu m.a. þau að mikil spenna yrði á fjármálamarkaðnum. En það sem var ekki vitað þegar stóriðjuáformin fóru í gang var sú breyting sem orðið hefur á lánamarkaði bankanna og að lán til íbúðarkaupa færu í svo ríkum mæli yfir til bankanna og að útlán þeirra yrðu ekki bundin við kaup á íbúð. Þar af leiðandi hefur orðið mikil spenna og eyðsluþensla hjá almenningi hér á landi í efnahagslífinu.

Ljóst er að þær stóriðjuframkvæmdir sem við stöndum í núna eru af þeirri stærðargráðu að íslenskt efnahagslíf ræður tæplega við það og eru timburmennirnir rétt að byrja að koma í ljós. Þetta er þegar farið að hafa áhrif á útflutningsgreinarnar og sjávarútvegurinn, sem hefur verið sterkasta undirstöðugrein okkar í atvinnulífinu til margra ára, hefur verið að veikjast vegna sterks gengis krónunnar. Það er erfitt að sjá fyrir hvert þetta muni leiða. Hugsanlega mun þetta verða til þess að það verður meira kallað eftir erlendum fjárfestingum inn í íslenskan sjávarútveg. Hvort þetta er meðvitað eða ómeðvitað skal ég ekki segja um, en það læðist að mér sá grunur að þegar verið er að þrengja svo að stöðu opinberra stofnana að þær hafi ekki möguleika til að sinna lögboðnum verkefnum og að verkefnin eru þá sett yfir í einkarekna þjónustu, að þetta sé hugsanlega meðvitað að horfa til þess að sjávarútvegurinn muni þurfa á erlendu fjármagni að halda til þess að fara hreinlega ekki í gjaldþrot.

Til þess að halda sjó hefur Seðlabankinn það mikilvæga hlutverk að halda verðbólguspánni sem gefin er sem stöðugastri og til þess hefur hann möguleika til þess að hækka vexti sem hann hefur gert í dag. Er ekkert um það að segja annað en að Seðlabankinn er að bregðast við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þýðir ekki að kenna honum um heldur fremur að líta í eigin barm. Ég vona að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson geri það og endurmeti afstöðu sína til fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Til þess að ná hér endum saman og halda verðbólgu í skefjum verður að draga úr opinberri þjónustu og það hefur svo sannarlega verið gert. Það er dregið úr opinberum framkvæmdum og það eru stórir málaflokkar eins og samgöngubætur, heilir 2 milljarðar eru teknir úr framkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar. Það er dregið úr opinberri þjónustu og verið að hækka þjónustugjöld og aðra þætti sem bæði sjúklingar og neytendur finna fyrir.

Það má segja að heilbrigðisþjónustunni og velferðarþjónustunni sé settur mjög alvarlega þröngur rammi til þess að halda uppi óbreyttri velferðarþjónustu, og þó að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti á Alþingi neiti því að verið sé að skera niður í velferðarþjónustunni er ramminn svo þröngur að forstöðumenn stofnana og stofnanir hafa sárlega kvartað undan að þau geti ekki sinnt þeim verkefnum sem þeim ber samkvæmt lögum. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir núna þegar verið er að afgreiða fjárlög fyrir 2005.

Sjúklingar hafa sérstaklega fundið fyrir þessu aðhaldi eða niðurskurði, vil ég frekar kalla það, því komugjöldin hafa hækkað, þátttaka í heilbrigðisþjónustunni kostar orðið meira og lyfjakostnaður er orðinn hærri fyrir einstaklinga, sérstaklega þá sem þurfa eitthvað á þeirri meðferð að halda. Því tel ég, alveg þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra hélt fram í dag, að stóriðjustefnan væri hér til þess að lyfta tröllataki í atvinnulífi þjóðarinnar og undir hennar regnhlíf mundu fleiri atvinnutækifæri blómstra, ef ég má nota mitt orðalag til þess að lýsa skoðun hans. Ég tel að þvert á móti geti það til lengri tíma litið verkað öfugt, að stefnan, þenslan og gengisstaða krónunnar muni hreinlega bitna á útflutningsfyrirtækjum okkar og veikja þau svo að við munum búa við fyrirtæki sem eru ekki eins fjölbreytt og í dag.

Hvað varðar öryrkjana og loforð ríkisstjórnarinnar um að bæta kjör öryrkja vil ég enn og aftur taka fram, sem ég held að megi segja að sé skjalfest á mörgum stöðum, að ríkisstjórnin hefur ekki uppfyllt það samkomulag sem hún stóð fyrir að gera við Öryrkjabandalag Íslands rétt fyrir kosningar. Forsenda þess að Öryrkjabandalagið skrifaði undir samkomulagið voru ákveðnir útreikningar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur viðurkennt að það sé ekki búið að uppfylla nema tvo þriðju samkomulagsins og þær hækkanir sem fram hafa komið til öryrkja í núverandi og fyrrverandi frumvarpi eru eingöngu til þess að mæta fjölgun öryrkja en ekki til þess að uppfylla það samkomulag sem gert var, þá línulaga lækkun ákveðinnar upphæðar sem átti að vera mest til þeirra sem yngstir hafa orðið öryrkjar.

Því miður er þetta enn eitt málið sem öryrkjar verða að reyna að fá fram með því að fara dómstólaleiðina. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnst þetta ekki hæstv. ríkisstjórn til sóma að koma fram við öryrkja eins og gert hefur verið, ekki bara í þessu máli heldur öðrum. Ég vona að ríkisstjórn og þær ríkisstjórnir sem munu sitja hér eftir muni láta þessi mál sér að kenningu verða og koma fram við öryrkja eins og þeim ber og a.m.k. standa við það samkomulag sem gert er.

Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um stöðu heilbrigðisþjónustunnar. Það er alveg ljóst að miðað við frumvarpið verða áfram miklir rekstrarerfiðleikar á flestum stofnunum. Má nefna Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem upphæðirnar eru jú hæstar, og að öllu óbreyttu verður enn frekari skerðing á þjónustu á þeirri stofnun. Það er ljóst að til þess að halda óbreyttum rekstri vantar um 600 millj. í frumvarpið fyrir 2005 þannig að farnar verða einhverjar af þeim leiðum sem stofnunin hefur lagt til, að segja upp fólki, koma af sér ákveðinni þjónustu og/eða taka hærri gjöld fyrir þá þjónustu veitt er í dag, auka göngudeildarþjónustu og fjölga þeirri meðferð sem fer inn á fimm daga þjónustu og alls konar tilfærslur innan stofnunarinnar vegna helgarþjónustu sem mun leiða af sér mikið óhagræði og aukna sýkingarhættu. Stofnunin stendur frammi fyrir þessu og alveg greinilegt að frekar á að líta til þess í fjáraukalögum að styrkja rekstrarstöðu stofnunarinnar frekar en að gera það núna. Ég tel að þetta vinnuferli eða þetta ráðslag sé mjög erfitt og ætti að vera óþarft fyrir stjórnendur ríkisstofnana að eyða svo mikilli orku og kröftum í þennan þátt í staðinn fyrir að geta einbeitt sér að því að reka stofnanir sínar eins og lög kveða á um. Þetta er orðin óþolandi staða sem forstöðumenn stofnunarinnar eru settir í.

Ef við nefnum sjúkrahúsin vítt og breitt um landið er greinilegt að þar verða vandamál uppi. Það þarf greinilega að skera niður helgarvaktir, minnka bráðaþjónustu, dregið verður úr viðhaldi og reynt að halda mannahaldi niðri eins og hægt er. Þetta eru þær aðgerðir sem stofnanirnar verða að grípa til og það verður erfitt fyrir heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar að uppfylla lögboðna þjónustu miðað við fjárlögin.

Dvalarheimilin fá aukið framlag, þ.e. óskilgreint framlag til dvalarheimilanna vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, sem er alls ekki nóg samkvæmt þeim heimildum sem við höfum í dag vegna þeirrar breytingar sem hefur orðið á hjúkrunarþyngd sjúklinga sem liggja inni á dvalarheimilunum, og enn vantar fleiri rými inn á hjúkrunarheimilin, og er þá einungis fátt upp talið.

Hvað varðar heimaþjónustu aldraðra, langveikra og fatlaðra þá þarf að stórefla þá þjónustu, bæði til að mæta kröfum heilbrigðisþjónustunnar um styttri legutíma og einnig vegna breyttra viðhorfa til einstaklingsbundinnar þjónustu.

En að mínu mati er það stórhættuleg stefna að stytta legutímann og útskrifa sjúklinga á sama tíma og sveitarfélögin eru það aðþrengd í rekstri að þau hafa ekki haft bolmagn til að efla heimaþjónustuna eins og nauðsynlegt er. Þetta hefur nú þegar leitt af sér meiri einangrun margra sem eru heima þar sem þjónustan er ekki í því magni sem hún þyrfti að vera. Eins má búast við að við förum að sjá fleiri einstaklinga sem fá legusár og verri legusár en verið hefur. Þetta er bara hluti af því að gæta þess ekki að sveitarfélögin geti sinnt þessari þjónustu og látið hana fylgja breyttum áherslum á sjúkrahúsunum.

Ég held að við hér á hinu háa Alþingi séum öll sammála um að betra sé að byrgja brunninn, og það á við um forvarnirnar og ætti því að koma enn sterkara fram í fjárlagafrumvarpinu. Því þó svo að áhersla á forvarnaþáttinn hafi að nokkru aukist þá vantar sárlega inn á marga pósta sem til lengri tíma litið spara þjóðfélaginu háar upphæðir. Þetta er viðurkennt og vitað og vil ég bara nefna Tannverndarsjóð í því sambandi.

Það vantar líka fleiri meðferðarúrræði fyrir geðfatlaða, fyrir geðsjúka og fyrir eiturlyfja- og áfengissjúklinga, eins og dæmi SÁÁ gefur sterkt til kynna og einnig þrengingar Geðdeildar Landspítalans sem hefur orðið að draga úr, og mun verða að draga enn frekar úr þjónustu sinni við áfengissjúklinga. Það vantar einnig meðferðarúrræði fyrir fullorðna einstaklinga sem er erfitt að flokka undir einstaklinga sem eigi alfarið að fá heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu, og sá hópur er stór.

Frú forseti. Mig langar enn og aftur að segja nokkur orð um stöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands, þó hægt væri að nefna fleiri heilbrigðisstofnanir vegna þess hve erfiðri skuldastöðu þær eru í. Heilbrigðisstofnun Austurlands er í þeirri stöðu, vegna mikilla umsvifa og fólksfjölgunar á svæðinu, að þrátt fyrir ákveðinn samning um þjónustu vegna virkjunarframkvæmda uppi á hálendinu þá dugar aukið framlag engan veginn til að halda uppi óbreyttum rekstri, það er öllum ljóst. Það eru að rísa 1.800 manna vinnubúðir á Reyðarfirði, þetta er heilt þorp, og Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað hefur ekki verið búið nýjum tækjum sem til þarf, og þar nefni ég eingöngu röntgentækin. Sú stofnun er sett á biðlista eftir röntgentækjum, rétt eins og hver önnur stofnun, og ef afgreiðsla þeirra gengur með sama hraða og afgreiðsla annarra dýrra tækja á fjárlögum þá má búast við að Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað fái ný röntgentæki um svipað leyti og stóriðjan á Reyðarfirði er risin.

Það sér hvert einasta mannsbarn að jafnmiklum framkvæmdum og þarna verða fylgir mikil ábyrgð, þar sem þá er svo mörgum stefnt inn á svæði einnar heilbrigðisstofnunar. Það hlýtur því að eiga að koma til móts við stofnunina og sjá til þess að hún geti sinnt hlutverki sínu þannig að bæði heilsugæslan, og þá ekki síður sjúkrahúsið séu vel tækjum búin þann tíma sem þessi mikli mannfjöldi er þarna, og mikil slysahætta er fyrir hendi, en við þessu verður að vera hægt að bregðast. En ég tel að svo sé ekki og það tel ég vera mjög alvarlega stöðu og hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að fylgjast mjög vel með ástandinu á þessu svæði.

Ég vil enn og aftur nefna forstöðumenn heilbrigðisstofnana, sem vítt og breitt um landið eru í þeirri stöðu að búið er að leggja niður stjórnir heilbrigðisstofnananna og þar af leiðandi hafa þeir ekkert bakland heima í héraði. Þeir eiga að framfylgja lögum, bæði lögum um heilbrigðisþjónustu og sjá til þess að stofnanirnar sinni því sem þeim ber, og þeir eiga líka að framfylgja fjárlögum, en hvorugt er hægt að gera. Staða þessara forstjóra er því algjörlega óviðunandi og mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra eigi að skoða alveg sérstaklega hvort sú breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu að leggja niður stjórnir heilbrigðisstofnana, hafi verið rétt og skoða það með opnum hug og endurmeta stöðuna.

Að lokum vil ég nefna eitt mál sem margir aðrir hafa nefnt hér í dag en það er Mannréttindaskrifstofan. Það er verið að vega að sjálfstæði stofnunarinnar og þýðir ekki að reyna að snúa út úr því og segja að hún fái sama fjármagn, það sé hægt að tala við hæstv. ráðherra, og að allt sé í lagi því vel hafi farið á með hæstv. ráðherra og Mannréttindaskrifstofunni þegar fulltrúar hennar hafa átt erindi til dómsmálaráðherra eða forsætisráðherra.

En það er verið að skerða sjálfstæði stofnunarinnar og ég tel að við eigum að horfa til Mannréttindaskrifstofunnar á nákvæmlega sama hátt og til umboðsmanns Alþingis. Það er stofnun sem á að vera gagnrýnin, á að gagnrýna störf opinberra stofnana, og nákvæmlega sama gildir um Mannréttindaskrifstofuna, það verður að tryggja algjört sjálfstæði slíkra stofnana.

Ég held að ekki þurfi að segja neitt fleira um það og ég veit að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem tekur til máls á eftir mér, mun fara betur yfir mál Mannréttindaskrifstofunnar. Þetta er ekki spurning um upphæð, þetta er spurning um sjálfstæði og við verðum að standa vörð um sjálfstæði Mannréttindaskrifstofunnar og það er betra að við gerum það hér og gerum það strax en að fá á okkur kærur og illt umtal úti í heimi.