131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:44]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki einkennilegt að það sé landlægur misskilningur að 20 milljarða kr. skekkja sé á fjárlögunum ár hvert. Það er einfaldlega niðurstaðan þegar lokafjárlögin liggja fyrir.

Ég hlýt að minna hæstv. fjármálaráðherra á að hin vandaða skýrsla, sem Seðlabankinn hefur kynnt og ráðherrann sjálfur lofað, segir berum orðum að minna aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum núna en árin 1999 og 2000, þegar hæstv. fjármálaráðherra var við stjórnvölinn. Það endaði með því að hann missti svo stjórnina á efnahagsmálunum að hér varð 9% verðbólga árið 2001. 9% verðbólga þýðir fyrir 900 milljarða kr. skuldir heimilanna 80 milljarða kr. hækkun á skuldum heimilanna yfir eitt ár. Ætti ráðherrann ekki að taka alvarlega þær aðvaranir Seðlabankans um að nú gæti minna aðhalds í efnahagsmálunum en árin 1999 og 2000, með þeim alvarlegu afleiðingum sem það hafði fyrir heimilin í landinu?