131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið var ekki skýrt hjá hæstv. ráðherra. Gerir hún ráð fyrir að þeir nemar sem hafa hafið nám í frumgreinadeild núna þurfi einhvern tímann að greiða skólagjöld við hinn nýja háskóla? Eða komast þeir í gegnum háskólanám sitt án þess að greiða skólagjöldin? Það verður að vera alveg skýrt.

Varðandi orð hæstv. ráðherra áðan um að í þessum sal eigi það sem hún kallar sjálfstæðu háskólana ekki stuðning þá er það alrangt. Hér hafa stjórnarandstöðuþingmenn, ég þar með talin, fagnað auknum tækifærum ungs fólks til náms á háskólastigi. Hins vegar hef ég gagnrýnt hæstv. menntamálaráðherra og stjórnvöld fyrir að sú aukning megi ekki vera á kostnað hinna opinberu háskóla.

Hæstv. ráðherra verður að hafa það sem rétt er í þessum efnum. Opinberu háskólarnir hljóta að verða að fá að standa keikir og njóta sannmælis í þessum efnum. Efling háskólastigsins má ekki vera á kostnað þeirra.