131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:14]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru reyndar fjölmörg atriði sem rétt er að gera athugasemd við varðandi ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég kem þeim kannski ekki öllum að hér í fyrra andsvari mínu. Mig langar til að byrja á því að nefna það atriði sem gagnrýnt hefur verið hér, þ.e. fyrirhugað rekstrarform á þessum sameinaða skóla.

Því hefur verið haldið fram að óeðlilegt sé að hinn nýi og sameinaði skóli sé rekinn sem einkahlutafélag en ekki sem sjálfseignarstofnun. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst þau að sjálfseignarstofnanirnar séu svokölluð „non-profit associations“ en einkahlutafélögum sé ætlað að skila arði. Ég vil meina að almennt sé aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur á þessu tvennu. Það er ekki sjálfgefið að sjálfseignarstofnanir skili ekki arði og að ekki sé gerð krafa um að þær skili ekki arði. Ég nefni sem dæmi sparisjóðina í landinu. Ætla menn að halda því fram að þær sjálfseignarstofnanir starfi ekki á grundvelli arðsemi og hagnaðar? Það getur líka verið að einkahlutafélögum sé ekki gert skylt að skila neinum verulegum arði, heldur komi menn sér saman í félagi um einhver tiltekin mál. Á þessu er bara stigsmunur en ekki eðlismunur.

Það sem skiptir máli hér er að ríkisvaldið taki ákvörðun um hvort fela eigi einkaaðilum rekstur á ýmsum stofnunum, þar á meðal menntastofnunum. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin á ríkið ekkert að skipta sér af því á hvaða formi hinir tilteknu einkaaðilar ætla að reka starfsemina. Það er aukaatriði í málinu. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er prinsippákvörðun um að fela einkaaðilum þennan rekstur.

.