131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:20]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki maklegt að væna okkur sjálfstæðismenn um að hafa forðast opinskáa umræðu um töku skólagjalda í ríkisháskólum. Hún hefur farið fram, bæði á vettvangi flokksins og sömuleiðis á vettvangi ungliðahreyfingar flokksins. Menn í mínum flokki hafa ekki verið neitt hræddir við að segja skoðun sína hvað varðar skólagjöld. (BjörgvS: Hver er það?) Svo ég fái að svara, þá hef aldrei verið hræddur við það, hvorki hér, í sjónvarpsþáttum eða á öðrum opinberum vettvangi að lýsa skoðun minni á þessum atriðum. Ég er þeirrar skoðunar, rétt eins og hinn ágæti hópur Samfylkingarinnar sem fjallar um rekstrarform í almannaþjónustu, að rétt sé að skoða að heimila Háskóla Íslands að taka skólagjöld. Ég hef aldrei dregið fjöður yfir það. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það og ég hef sagt það áður, eins og Samfylkingin segir í stefnu sinni, að mér finnst það ekkert óeðlilegt. Það eru sterk rök á bak við það að stúdentar taki virkari og ríkari þátt í kostnaði þeim sem fellur til vegna náms þeirra. Þetta er alveg ljóst í mínum huga og meira að segja virðist mér þetta vera ljóst í huga hv. þingmanna Bryndísar Hlöðversdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanna Samfylkingarinnar.

Ég tel því að afstaða mín til málsins sé alveg skýr og að hún hafi alltaf verið það. Ég hef hins vegar sagt það og segi enn að ég tel að það sé ekki okkar stjórnmálamannanna, enda erum við ekki með nefið ofan í rekstri Háskóla Íslands frekar en annarra menntastofnana á Íslandi, að taka ákvörðun um hvort rétt sé að innheimta skólagjöld. Það er ákvörðun þeirra sem stýra skólunum sem vita hvar skórinn kreppir og hvort rétt sé að taka slík skólagjöld.