131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík.

227. mál
[10:31]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. n., Ásta Möller, hefur beint til mín fyrirspurn um hvað hafi ráðið því, eins og það er orðað í fyrirspurninni, að ekki var farið að stefnu heilbrigðisráðuneytisins um útboð við kaup á sérfræðiþjónustu þegar rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík var lögð niður sl. sumar og samningur gerður við Landspítala – háskólasjúkrahús um að spítalinn tæki við rekstri hennar.

Forsaga málsins er sú að hjá heilsugæslunni í Reykjavík voru uppi áform um að sameina minni rannsóknarstofur á heilsugæslustöðvunum í eina stærri rannsóknarstofu sem yrði staðsett á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Rannsóknarstofu þessari var ætlað að annast rannsóknir í blóðmeinafræði og klínískri lífefnafræði fyrir heilsugæsluna í Reykjavík. Fyrir lá að hliðstæðar rannsóknarstofur voru fyrir hendi á Landspítala og afkastageta þeirra var langt umfram fyrirsjáanlega rannsóknarþörf. Ég taldi því mikilvægt að nýta þau tæki og aðstöðu sem þegar var fyrir hendi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ekki er fullnýtt í stað þess að tvöfalda stofnkostnað með því að setja á fót nýja rannsóknarstofnun.

Hv. þm. spyr hvað hafi ráðið því að þjónustan var ekki boðin út. Því er til að svara að það hlýtur að vera háð mati hverju sinni hvort þjónusta er veitt af hinu opinbera eða hvort samið er við einkaaðila um einstaka verkþætti eftir atvikum að undangengnu útboði. Mat á því hvort semja skuli við einkaaðila hlýtur ávallt að vera háð annars vegar mati á hagkvæmni og hins vegar mati á gæðum þjónustu. Í þessu tilviki var það mat mitt að ná mætti meiri hagkvæmni með því að nýta umframafkastagetu rannsóknarstofu á Landspítala en með því að bjóða út rannsóknirnar. Þannig taldi ég einnig að sú mikla reynsla og sérfræðiþekking sem fyrir er á Landspítala ætti að tryggja betur gæði þjónustunnar.

Tilgangur samnings heilsugæslunnar í Reykjavík og Landspítala – háskólasjúkrahúss um rannsóknarþjónustu er að ná sem mestri hagkvæmni í rannsóknum fyrir heilsugæsluna í Reykjavík. Er hann því í fullu samræmi við ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu þar sem ráðherra er veitt heimild til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að auka hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.

Ráðuneytinu ber að haga starfsemi stofnana sinna með þeim hætti að fjármunir nýtist sem best, m.a. með því að koma á samvinnu og samningum milli einstakra stofnana sem miða að því að lágmarka kostnað við einstaka rekstrarþætti. Ég tel því að mér hafi verið bæði rétt og skylt að leitast við að ná sem mestri hagræðingu í framkvæmd rannsókna fyrir heilsugæsluna í Reykjavík og hafi verið heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni, m.a. að hlutast til um að heilsugæslan semdi við Landspítalann um rannsóknir. Ég tel því að hér hafi verið um að ræða nauðsynlegar ráðstafanir sem miði að því að draga úr kostnaði hins opinbera af heilbrigðisþjónustu.