131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór mikinn og víða og var ágætur framan af en þegar hann fór að endurtaka sig aftur og aftur minnkaði gildi ræðunnar þannig séð.

Hann talaði um skattahækkunarpakka. Ég fellst á að þetta gjald sé skattahækkun, það er framlenging á skatti, ég fellst á það og er búinn er að segja það. Ég færði líka rök fyrir af hverju.

Hækkun á krónutölugjöldum í samræmi við verðlag er í mínum huga ekki skattahækkun og það þarf einhver að segja mér að það sé skattahækkun, krónutölugjöld í verðbólgu sem allir vita að rýrna. Ég trúi því ekki að hv. þm. hafi ekki tekið eftir því. Hann er þá eini Íslendingurinn sem þannig er ástatt um.

Varðandi það sem hann talaði um sem tilganginn með verkefninu, hann talaði alltaf um Landskrá fasteigna sem eitthvert gæluverkefni. Þetta er grundvöllur kapítalismans, þetta er grundvöllur markaðshagkerfisins. Þarna eru eignir skráðar, þetta er grundvöllurinn. Og þegar talað er um að búið sé að skrá þetta allt saman áður, það er rétt, en það er skráð í þykkum doðröntum með bleki. (Gripið fram í: Hvað kostar að …?) Það kostar líka rosamikið að skrá það með gamla laginu, með bleki á þykka doðranta og það kostar mikið að lesa upp úr þeim doðröntum. Það er sá kostnaður sem verið er að taka burtu með því að hafa þetta tölvukeyrt þannig að hægt sé að fá upplýsingar strax um eignir og veðbönd á þeim og eigendur og allt slíkt í staðinn fyrir að fletta fjölda bóka um allt land sem er nánast tæknilega útilokað. Þessi skráning er örugglega mjög arðbær fyrir þjóðfélagið í heild sinni og fyrir atvinnulífið allt. Það sem ég er á móti er að fasteignaeigendur skuli einir greiða þetta en ekki þeir sem njóta þess mest sem eru bankakerfið, sveitarfélögin, fasteignasalar og fleiri. Kerfið sjálft er mjög gott kerfi.