131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:37]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lítið skref í rétta átt er betra en stórt skref í vitlausa átt. Auðvitað höfum við tekið undir það að hér er um að ræða gott mál enda erum við samþykk því og erum með á nefndarálitinu með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið raktir. En þó það nú væri að menn hefðu fyrirvara um jafnstórt mál og þetta. En að sjálfsögðu fögnum við því að verið er að létta endurgreiðslubyrðina. Þó ekki sé í meira mæli en hér um ræðir er þetta að sjálfsögðu ágætt mál. Þetta með litla skrefið er úr umsögn námsmanna, minnir mig, og hefur verið marghent hér á lofti af hv. formanni.

Af því að hann talaði um þann útgjaldaauka fyrir ríkissjóð sem hér um ræðir þá spurði ég hann áðan hvað hann áætli að sú breyting á skólafyrirkomulagi okkar muni kosta sjóðinn að því sé velt yfir á hann án umræðu að fjármagna grunnnám á háskólastigi að verulegu leyti og ef Tækniháskólanemendur eiga að fara að taka lán fyrir sínum skólagjöldum, þ.e. hvaða útgjaldaauka það hafi í för með sér og hvort það mál hafi verið rætt sérstaklega á milli formanns menntamálanefndar og hæstv. menntamálaráðherra eða yfirmanna menntamála í landinu. Á hvaða stigi er þessi umræða á milli forustumanna Sjálfstæðisflokksins í menntamálum? Er hún ekki á neinu stigi, frumstigi? Með hvað er farið af stað í þessa umræðu? Hvert er markmiðið og hver er áætlaður kostnaður við að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að stórum hluta eða að einhverju leyti að standa undir kostnaði við grunnnám á háskólastigi?