131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:11]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi staðið upp áðan og hrakið orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Fólk getur svo sem túlkað þá niðurstöðu.

Varðandi matarskattinn er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn er ekki að stoppa þetta mál af. Eini flokkurinn sem hefur sagst ekki ætla að lækka matarskatt, eins og kom fram í viðtali, var aðili sem svaraði fyrir stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég ítreka forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattalækkunum. Hér er styrk efnahagsstjórn og það er ekki nema von að hv. stjórnarandstöðu og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni líði illa í dag þegar við erum að tala um tekjuskattslækkun upp á 4%, hækkun persónuafsláttar, hækkun skattleysismarka, hækkun barnabóta, minni greiðslubyrði námslána o.s.frv. (Gripið fram í.)