131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:05]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var náttúrlega að vonum að hv. þingmanni dygði vegferðin til að komast yfir í sjómannaafsláttinn. Ég óska honum til hamingju með það, það hlýtur að vera eitt af gleðiefnum þessa dags að hafa komist þangað í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Sjómannaafslátturinn, hv. þingmaður, er hluti af kjörum sjómannastéttarinnar, búinn að vera það í yfir 50 ár og hann verður ekki af stéttinni tekinn nema laun þeirra verði bætt með öðrum hætti í staðinn. Það liggur algjörlega fyrir. Það er sambærilegt við það að hv. þingmaður hefur hér ákveðin kjör eins og varðandi ferðakostnað og annað sem að kjörum okkar lýtur, aðgang að ágætu fæði fyrir litla fjármuni o.s.frv. Það er alveg óþarfi, hv. þingmaður, að vera með einhverja öfund hér í garð sjómannastéttarinnar. (PHB: Þeir telja eftir sér að borga …)

Varðandi það hvort ég öfundi einhvern af tekjum hans er það ekki svo. (PHB: Eignum.) Ég öfunda ekkert fólk, hvorki af tekjum þess né eignum. Það mega allir eignast það sem þeir hafa verðskuldað og unnið fyrir á heiðarlegan hátt. Ég hef hins vegar haft athugasemdir við það hvernig eignamyndun hefur átt sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum undir stjórn núverandi ríkisstjórnarflokka.

Ábyrgð og menntun skilar að jafnaði betri launum til fólks enda væri fólk annars ekki að leggja á sig skólagöngu eða að taka á sig meiri ábyrgð ef það færði því ekki eitthvað í launum. Ég held að skattkerfið okkar valdi því ekki að fólk taki ekki að sér ábyrgð eða mennti sig. Það sýnir best aðsóknin í skólana svo að eitthvað sé nefnt.

Ég held líka að menn verði að horfa til þess að við viljum hafa velferðarkerfi í þessu landi. Þjóðin vill hafa hér aðgang að velferðarkerfi og til þess greiða menn skatta. Ég hef engan Íslending hitt sem vill skera niður velferðarkerfið og þá þurfum við að borga það.