131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[13:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru sáttir við meginmarkmið frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að endurgreiðslubyrði námsmanna lækki um eitt prósentustig og munum við því styðja grundvallaratriðin í frumvarpinu, meginmarkmið þess. Þó hefðum við viljað sjá meira tillit tekið til sjónarmiða námsmannahreyfinganna sem lögðu til að önnur leið yrði farin að sama markmiði, svokölluð skattalækkunarleið sem gerir ráð fyrir að endurgreiðslubyrðin verði lækkuð með frádrætti í skattkerfinu. Það er mat okkar að hægt hefði verið að ganga lengra til móts við kröfu námsmannahreyfinganna sem hafa notið stuðnings BHM.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, styðjum við þær greinar frumvarpsins er varða lækkun endurgreiðslubyrðarinnar en það sama verður hins vegar ekki sagt um b-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um frestun réttaráhrifa úrskurða málskotsnefndarinnar. Það er mat okkar að verið sé að fara vafasama leið í stjórnsýslulegu tilliti og vegna þess hversu seint málið var fram komið og hversu lítill tími vannst til að skoða það í nefndinni hef ég gert kröfu um að málið verði kallað aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. og að hinn stjórnsýslulegi þáttur greinarinnar verði þá skoðaður nánar.

Vegna þessa vafa munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við atkvæðagreiðslu um b-lið 1. gr.