131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:33]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að gera að umtalsefni gagnvart eignarsköttum er að benda á það misrétti og þann mismun sem kemur fram í ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar gagnvart fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni. Það eru fyrirtæki sem borga eðlilega ekki mikla eignarskatta eins og staðan er í dag, en borga mikla aðra skatta og sá fyrirtækjarekstur mun ekki hagnast á skattkerfisbreytingunni. Hann hagnaðist heldur ekki á skattkerfisbreytingunni þegar tekjuskatturinn á lögaðilum var lækkaður úr 30% niður í 18%. Ég var einfaldlega að benda á þær eignarskattsbreytingar sem verða hjá höfuðborgarbúum gagnvart landsbyggðarbúum.

Virðulegi forseti. Ef menn vilja ganga í þessa eignarskattslækkun, gott vel, gangið þið þá göngu, en ég spurði einfaldlega: Hefði ekki verið hægt, og voru engir þingmenn innan stjórnarflokkanna sem héldu fram sjónarmiðum landsbyggðarinnar og gátu bent á að aðrir skattar hefðu komið fyrirtækjarekstri og einstaklingum á landsbyggðinni betur en þessar skattalækkanir?