131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:42]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hv. þingmanni að ég eigi þarna persónulega hlut að máli. Það er Alþýðusamband Íslands sem gerði samning við Samtök atvinnulífsins um fólk sem starfar á almennum vinnumarkaði. Samtök opinberra starfsmanna hafa ekki gert hliðstætt samkomulag en eins og fram kemur í nefndarálitinu (Gripið fram í.) munu lögin taka til samninga sem aðrir aðilar kunna að gera og eru til þess fallnir að verja kjör og rétindi farandverkafólks og launafólks almennt.

Það er viðurkennd staðreynd að óprúttnir atvinnurekendur níðast á þessu fólki. Við höfum séð hvað er að gerast á skipum sem hafa komið hingað til lands með áhafnir frá ríkjum þar sem fátækt er mikil. Við höfum líka séð hvað er að gerast á Austurlandi, við virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka. Þar hafa menn af því þungar áhyggjur að grafið sé undan ekki aðeins kjörum þess fólks sem þarna á í hlut heldur almennt launafólks í landinu. Þessi lagasmíð er gerð til þess að styrkja réttindi og kjör launafólks. Þess vegna er sérstakt fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli koma fram.