131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:18]

Dagný Jónsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar er rétt og árangur styrkrar efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar er tekjuskattslækkun um 4%, hækkun persónuafsláttar, hækkun skattleysismarka, hækkun barnabóta og afnám eignarskatts. (Gripið fram í: Hækkun skólagjalda.) Það er ekki nema von að hv. þm. stjórnarandstöðu séu svekktir að horfa upp á hæstv. ríkisstjórn uppfylla hvert málið á fætur öðru sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar dæma sig sjálf varðandi virðisaukaskatt á matvælum enda hefur annað komið fram í umræðum á hv. Alþingi og tekur því ekki að fara að leiðrétta hv. þingmann enn eina ferðina.

Hæstv. forseti. Þessar aðgerðir koma til móts við fólkið í landinu og við erum að skila tekjuaukanum til þess. Hér er stigið gæfuspor og fólk nýtur ávaxta styrkrar efnahagsstjórnar.