131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[14:43]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég kem hér upp er ræða hv. þm. Marðar Árnasonar. Hann fór hér nokkrum orðum um formann menntamálanefndar, hv. þm. Gunnar Birgisson, og hann var að lýsa því hvernig hann stjórnaði þeirri ágætu nefnd, menntamálanefnd. Ég er fullkomlega ósammála þeim málflutningi sem hér kom fram. Sjálfur á ég sæti í fjórum nefndum þingsins og þar á meðal í menntamálanefnd og það get ég vitnað um hér í þingsal að hv. þm. Gunnar Birgisson þekkir mjög vel til menntamála, til þessa málaflokks. Hann hefur stundað kennslu. Hann þekkir mjög vel til lánasjóðsins. Það að hann hafi misnotað aðstöðu sína sem formaður þessarar nefndar er ósatt. Það eru ósæmileg ummæli sem hv. þm. Mörður Árnason fór hér með áðan um hv. þm. Gunnar Birgisson.

Það er mjög sérstakt að viðkomandi þingmaður skuli taka þetta mál upp hér í þingsal. Það er mjög sérstakt. (Gripið fram í: Hvað er ...?) Ég vil aðeins koma inn á það hvaða umræður hafa verið í menntamálanefnd. Hv. þm. Mörður Árnason er hreinlega með dónaskap, verð ég að segja, því miður, hér í þingsal, við gesti og á fundum. Hann hagar sér eins og hann sé í kappræðufundi í sjónvarpi og mér finnst það ekki tilhlýðilegt í nefndarstarfi á vegum Alþingis. (Gripið fram í.) Ég held að við ættum að fá forsætisnefnd til að fara svolítið yfir agamál í nefndum þingsins.