131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:45]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að stjórnvöld hefðu fyrir löngu átt að setja það fram ef þetta var hugmyndin sem hér hefur verið um rætt. Það virðist alla vega ekki vera neitt trúnaðarbeisli á Alfreð Þorsteinssyni, hann gat sagt frá þessu þegar honum hentaði að þær viðræður hefðu verið í gangi. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi talað þannig að málunum væri ekkert lokið og væru enn þá í umfjöllun en samt hafa þau komist í fréttir með þeim hætti sem hv. þingmenn hafa auðvitað tekið eftir.

Ég gef ekki mikið fyrir trúnað af þessu tagi einfaldlega vegna þess að þetta eru opinberir aðilar. Stór hluti þjóðarinnar á aðild að málinu vegna Reykjavíkurborgar og þjóðin í heild á aðild að málinu vegna eigna ríkisins í Landsvirkjun og í Rarik. Mér finnst því að menn fari stundum of langt í því að halda málefnum leyndum sem við í lýðræðissamfélagi ættum að geta talað um. Mér finnst að það spilli ekki fyrir framgangi mála að hafa einhverja stefnu um að hverju sé stefnt. Það þarf ekkert að leiða nákvæmlega fram með hvaða hætti menn ljúka endanlega samningum eða eitthvað slíkt en það þarf skýrar yfirlýsingar um hvert menn ætla. Ég tel að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefði átt að segja frá þessu fyrir löngu að hverju þau vildu stefna þannig að menn gætu rætt það.