131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu að vilji sé fyrir því að skoða breytt fyrirkomulag á eigandahlutverkinu. Ég minni á að hæstv. ríkisstjórn færði nýlega eignarhaldið á Símanum frá samgönguráðherra til fjármálaráðherra og (Gripið fram í.) væri nú ekki síður ástæða til að skoða það í þessu tilviki.

Síðan verð ég að segja að því miður virðist allt ætla að ganga eftir sem við óttuðumst, við sem andæfðum því að sveitarfélögin á Vestfjörðum væru neydd til að selja frá sér Orkubúið á sínum tíma. Í stað þess að ríkisstjórnin kæmi til aðstoðar og tæki á fjárhagsvanda þeirra, hjálpaði til við að leysa vanda þeirra vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis o.s.frv. voru þau neydd til að selja verðmætustu og bestu eign sína, Orkubú Vestfjarða. Það var nauðungargjörningur. Það var þvingunaraðgerð.

Nú eru allar þær áhyggjur og sú tortryggni sem þá kom upp, um að þetta mundi leiða til þess að þeir misstu forræðið í þessu fyrirtæki sem síðan rynni saman við eitthvað annað og í burtu, að ganga eftir (Forseti hringir.) og það er ill ganga.