131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:52]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ráðherra hafi staðið sig mætavel í þessum málum. Hún hefur fært mjög trúverðug rök fyrir því að óhyggilegt sé að fresta gildistöku raforkulaga.

Ylrækt í landinu er hin græna stóriðja. Þar ríkir mikill metnaður og er í raun og veru mjög mikil samkeppni við innflutning. Samkeppnin er svo mikil að innflytjendur reyna jafnvel að blekkja neytendur með merkingu á vöru, þ.e. grænmeti sem flutt er til Íslands er merkt íslenskri merkingu þannig að oft á tíðum trúir neytandinn því að hann sé að kaupa innlenda vöru, sem er þá innflutt.

Þess eru dæmi í dag að garðyrkjubændur greiði allt upp í 3 millj. kr. á mánuði fyrir raforku á stærstu búum. Á Flúðum veit ég t.d. til þess að menn greiði svo háar upphæðir. Það á við um tómatarækt, paprikurækt, agúrkurækt og blómarækt. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér framtíð niðurgreiðslu raforku til ylræktar. Ylræktin er á vissan hátt viðkvæm grein út af samkeppni og það skiptir mjög miklu máli, fyrir bæði garðyrkjubændur og neytendur, að áfram verði niðurgreidd raforka til ylræktar. Mig langaði að biðja hæstv. ráðherra um að fara örlítið yfir þau mál. Við höfum auðvitað rætt þau oft, m.a. með raforkubændum en þetta eru atriði sem skipta miklu máli.