131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:16]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að um þessar skattalagabreytingar gæti ríkt mikil samstaða á Alþingi. Ég hafði gert mér vonir um að flokkarnir á Alþingi gætu verið sammála um að tekjuskattsprósentan færi í svipað horf og hún var þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp. Ég hafði líka gert mér vonir um að samstaða gæti verið um að leggja ætti skatt á tekjur af eignum en ekki á eignirnar sjálfar, og það væri mikilvægt að sveitarfélögin hefðu þann skattstofn sem fasteignagjöldin, lögð beint á eignirnar, eru. Ég hafði líka gert mér vonir um að almenn samstaða yrði um að hækka barnabætur verulega.

Nú er komið í ljós að stjórnarandstaðan er á móti þessum breytingum og það er miður. Þessar breytingar eru í fullu samræmi við yfirlýsingar stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar. Þær eru í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og ég minni á að t.d. Samfylkingin lýsti því yfir að það fyrsta sem þeir gerðu yrði að hækka skattleysismörk.

Hér er verið að hækka skattleysismörk, það er verið að lækka tekjuskattinn sem lækkar sérstaklega á millitekjufólki, á unga fólkinu sem er með mestu greiðslubyrðina, fólkinu sem notar milli 10 og 20% af tekjum sínum til að borga af íbúðarhúsnæði, og skattalagabreytingunni varð að haga þannig að hún næði ekki síst til þessa hóps. Það er fyrst og fremst eldra fólkið sem mun njóta breytinganna á eignarskattinum þannig að hér er um að ræða aðgerð sem kemur öllum til góða og stuðlar að jöfnuði í þjóðfélaginu því kaupmátturinn mun aukast mest hjá fjölskyldufólkinu. Kaupmáttur fjölskyldna í landinu mun aukast á bilinu 6–10%. Þetta eru gífurlegar breytingar og það er mikill jöfnuður í þessum aðgerðum sem ég vænti að stjórnarandstaðan muni átta sig á þegar fram líða stundir.