131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 1.

[15:15]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Aftur spyr ég: Við hvað er hæstv. forsætisráðherra hræddur þegar hann fer í flæmingi undan því að svara já eða nei hvort hann er reiðubúinn til þess að aflétt verði trúnaði af hans eigin ummælum um aðdraganda Íraksinnrásarinnar og ákvörðunar íslenskra stjórnvalda á fundi nefndarinnar 19. febrúar? Við hvað er hann hræddur?

Hann skýtur sér á bak við ákvörðun utanríkismálanefndar. Herra forseti. Það þarf ekki ákvörðun utanríkismálanefndar. Sérhver nefndarmaður getur leyst eigin ummæli undan trúnaði. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að hreinsa loftið með því að lýsa því yfir úr þessum stóli að hér með létti hann sjálfur trúnaðarskyldunni varðandi þau ummæli hans sem er að finna í fundargerðum utanríkismálanefndar. Það held ég að yrði mjög til þess að hreinsa loftið varðandi aðkomu hans að málinu.