131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[15:41]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2003. Skýrsla umboðsmanns Alþingis hefur að geyma yfirlit yfir störf hans og viðfangsefni á árinu 2003. Umboðsmanni er eins og segir í 2. gr. laga um það embætti fengið það hlutverk að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga eins og nánar er mælt fyrir um í lögunum. Þetta gerir umboðsmaður með því að taka við kvörtunum frá borgurum landsins og taka mál til athugunar að eigin frumkvæði.

Þótt umboðsmaður Alþingis sé með öllu óháður öðrum í starfi sínu, þar með töldu Alþingi, er starf umboðsmanns hluti af eftirliti Alþingis með starfsemi framkvæmdarvaldsins. Starfsskýrsla umboðsmanns á því að veita þingmönnum upplýsingar um að hvaða viðfangsefnum eftirlit umboðsmanns hefur beinst á umræddu ári og hver hafi verið viðbrögð stjórnsýslunnar við athugasemdum og tilmælum umboðsmanns. Skýrsla umboðsmanns er því með ákveðnum hætti spegill Alþingis til að sjá hvernig stjórnsýslan starfar og hvort tilefni sé til þess að huga að breytingum á löggjöf þar um. Þessi skýrsla er að formi til byggð upp með sama hætti og skýrslur síðastliðinna ára. Látið er við það sitja að birta þar að meginstefnu til aðeins útdrætti vegna mála sem umboðsmaður hefur lokið með áliti eða bréfi og ákveðið að birta opinberlega. Frekari upplýsingar um einstök mál má síðan finna á heimasíðu umboðsmanns Alþingis en þar birtast nú álit umboðsmanns jafnóðum og málunum er lokið. Það að birta álit umboðsmanns með þessum hætti veitir jafnt þingmönnum sem almenningi og ekki síst starfsfólki stjórnsýslunnar og fjölmiðlum kost á að fylgjast jafnóðum með þeim niðurstöðum sem koma frá umboðsmanni. Þetta fyrirkomulag og umfjöllun fjölmiðla um álit umboðsmanns er einnig mikilvægur liður í eftirliti og aðhaldi með starfi stjórnsýslunnar.

Á árinu 2003 fjölgaði skráðum málum hjá umboðsmanni frá árinu 2002 um nær 7% og er það áþekk fjölgun mála og verið hefur nú allra síðustu ár. Af skýrslu umboðsmanns verður ráðið að þrátt fyrir þessa fjölgun mála hefur afgreiðsla mála hjá umboðsmanni verið í góðu horfi og fleiri mál voru afgreidd en bárust á árinu 2003. Ég vek athygli á því að eins og í fyrri skýrslum umboðsmanns eru margvíslegar tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslur þeirra á árinu 2003 birt í II. kafla skýrslunnar. Í því efni nefni ég sérstaklega töflur sem eru á bls. 39 og 40 og sýna viðbrögð stjórnvalda við þeim tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra á árinu 2003. Það vekur athygli við skoðun á þessum töflum að við eftirfylgni af hálfu umboðsmanns kom ekki annað fram en að stjórnvöld hefðu í öllum þeim tilvikum þegar umboðsmaður setti fram tilmæli til þeirra, t.d. um að bæta úr galla sem verið hefur á meðferð máls eða breyta tilteknum starfsháttum, farið að tilmælunum. Ég tel að þetta sé til marks um góðan árangur af starfi umboðsmanns.

Að venju dregur umboðsmaður sérstaklega saman í inngangi skýrslu sinnar yfirlit yfir helstu viðfangsefni sem hann fjallaði um á árinu. Sé litið til einstakra málaflokka eru það að meginstefnu til sömu málaflokkarnir sem oftast koma við sögu í kvörtunum til umboðsmanns en yfirlit yfir þá fyrir skráð mál árið 2003 eru birt á bls. 33 í skýrslunni. Umboðsmaður bendir á að sem fyrr hafi það verið ákvæði stjórnsýslulaga sem mest reyndi á við úrlausnir mála hjá honum á árinu og hann telur tilefni til að víkja í inngangi sínum sérstaklega að reglum laga um rökstuðning. Hann rekur þar ábendingar sem hann hefur sett fram um það efni, m.a. um efni rökstuðnings við ráðningar í störf hjá ríkinu.

Það er ljóst af lestri inngangsins að ákveðin viðbrögð stjórnvalda hafa orðið umboðsmanni tilefni til að spyrja þeirrar spurningar hvort einhver hætta sé fólgin í því fyrir stjórnvöld að fylgja stjórnsýslulögum í störfum sínum. Umboðsmaður beinir þarna sjónum sínum að efni sem vissulega er þörf á að hugleiða sérstaklega þegar haft er í huga að það er tilgangur stjórnsýslulaga að auka og bæta réttaröryggi við meðferð mála í stjórnsýslunni og veita borgurunum rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem stjórnvöld eru að taka um málefni þeirra. Hvers vegna ættu stjórnvöld að hafa á móti því að fylgja þessum reglum við meðferð mála?

Umboðsmaður gerir í inngangi skýrslu sinnar grein fyrir vinnu að þeim málum sem hann hefur tekið upp að eigin frumkvæði. Í því efni er athyglisvert að lesa um athugun umboðsmanns sem beindist að meðferð mála hjá sjávarútvegsráðuneytinu í desember 2002 við úthlutun á byggðakvóta. Þar undirstrikar umboðsmaður nauðsyn þess að stjórnvöld vandi til verklags og starfshátta þegar hafist er handa um framkvæmd á lögbundnum verkefnum á borð við úthlutun takmarkaðra gæða á grundvelli matskenndra lagaheimilda.

Meðal þeirra atriða sem umboðsmaður fjallar um í I. kafla skýrslu sinnar eru samskipti umboðsmanns og stjórnvalda. Þar setur hann af sinni hálfu fram ákveðnar reglur og viðmiðanir um samskipti umboðsmanns og fyrirsvarsmanna stjórnsýslunnar. Eins og umboðsmaður tekur fram telur hann mikilvægt að bæði borgurum landsins og þeim sem starfa í stjórnsýslunni séu kunnar þær leikreglur sem að jafnaði hefur verið fylgt í þessum samskiptum og umboðsmaður óskar eftir að fylgt verði. Slíkt hefur líka það að markmiði að tryggja sjálfstæði umboðsmanns í störfum.

Það kemur fram í skýrslu umboðsmanns að á árinu 2003 lutu rúm 10% þeirra mála sem umboðsmanni bárust að réttarstöðu opinberra starfsmanna, þar með talið ráðningum í störf. Umboðsmaður víkur einnig að verklagi við ráðningu opinberra starfsmanna í inngangi skýrslu sinnar og gerir þar m.a. grein fyrir þeim sjónarmiðum sem á hefur verið byggt við ráðningu starfsmanna hjá hinu opinbera og hvers vegna þau eru önnur en á hinum almenna vinnumarkaði.

Rétt er að síðustu að vekja sérstaka athygli þingmanna á umfjöllun umboðsmanns á bls. 24–27 í skýrslunni en þar fjallar hann um réttaróvissu sem hann telur vera um hvort ákvarðanir sem teknar eru í almennri stjórnsýslu dómstólanna hér á landi falli undir starfssvið umboðsmanns. Bendir umboðsmaður á að óheppilegt sé að lögbundin afmörkun á starfssviði umboðsmanns sé að þessu leyti ekki eins skýr og kostur er. Telur hann nauðsynlegt að leitað verði eftir atvikum leiða á vettvangi Alþingis til að taka af vafa um hvort slíkar ákvarðanir eigi að falla undir starfssvið umboðsmanns.

Herra forseti. Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2003. Ég vil sem fyrr þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir vel unnin og árangursrík störf á liðnu ári.