131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[16:09]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Útgáfa og umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis er ætíð mikilvægur þáttur í starfi okkar. Þar er á ferðinni viðamikið yfirlit yfir þá þætti stjórnsýslunnar sem betur mættu fara. Það er nauðsynlegt að fólk sem starfar í opinberri stjórnsýslu og í opinberum störfum nálgist verkefni sitt frá réttum sjónarhóli. Það er þarna fyrir almenning í landinu en ekki öfugt. Við setjum á fót opinbert kerfi og opinbera stjórnsýslu svo hægt sé að þjóna fólkinu í landinu, en auðvitað tekst það ekki alltaf eins og það ætti að gera. Því höfum við boðið upp á margs konar úrræði fyrir almenning til að ná fram rétti sínum gagnvart stjórnsýslunni og leiðir til að benda á það sem betur má fara.

Embætti umboðsmanns Alþingis er án efa eitt mikilvægasta úrræði borgaranna til að ná þessum markmiðum. Það er rétt sem umboðsmaður Alþingis sagði í samtali við Morgunblaðið þann 6. júní síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Það setur að mér mestan kvíða þegar ég tel mig geta merkt að einhvers konar hroki ráði afgreiðslu eða framkomu. Þeir sem starfa í þágu hins opinbera verða að gæta þess að stjórnsýslan er ekki til fyrir starfsmenn hennar. Hún er til að þjónusta borgarana og leysa úr málum þeirra, samkvæmt þeim lagareglum sem settar hafa verið.“

Umboðsmaður Alþingis hefur fyrir löngu sannað sig sem afar trúverðugt embætti sem mark er tekið á. Það heyrir til algerra undantekninga að ekki sé farið eftir áliti umboðsmanns Alþingis. Það er einnig álitið af flestum vera mikið alvörumál ef embættið kemst að þeirri niðurstöðu að viðkomandi stofnun eða embætti hafi ekki farið eftir góðum stjórnsýsluháttum. En síðasta ár hefur þó verið umboðsmanni Alþingis erfitt. Hann hefur lent í orrahríð stjórnmálanna með dýpri hætti en oft áður. Það er auðvitað ekki heppilegt þegar hæstv. dómsmálaráðherra fær hvert álitið á fætur öðru í hausinn þar sem hann er m.a. álitinn hafa brotið stjórnsýslulög og dómstólalög. Það er heldur ekki heppilegt þegar þessi sami dómsmálaráðherra talar um umboðsmann Alþingis sem einungis mann úti í bæ. Það er sömuleiðis ekki heppilegt þegar hæstv. dómsmálaráðherra kallar niðurstöður umboðsmanns Alþingis „lögfræðilegar vangaveltur“ eins og hann gerir á heimasíðu sinni þann 8. maí síðastliðinn, eða sem „fræðilegar vangaveltur“ eins og hann gerir í samtali við Morgunblaðið þann 5. maí. Það er ekki heppilegt þegar hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, kallar umboðsmann Alþingis „álitsgjafa“ eins og hann orðaði það á Alþingi þann 11. maí síðastliðinn. Maður vill trúa því að umboðsmaður Alþingis sé meira en það og hafi þannig vigt að menn virði niðurstöðu hans.

Það er nefnilega gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld og sérstaklega ráðherrar grafi ekki undan trúverðugleika og því trausti sem umboðsmaður Alþingis býr yfir og þarf að búa yfir. Þótt menn geti verið ósáttir við niðurstöður umboðsmanns Alþingis, þá heyrir það til nýmæla að menn í háum stöðum svari honum með þessum hætti. Stjórnarhættir í þessu landi hafa því miður tekið slíkum breytingum að nú er þetta liðin tíð. Það segir auðvitað heilmikla sögu að umsækjendur að háum embættum eins og embætti hæstaréttardómara segi að það þýði ekkert að leita réttar síns hjá umboðsmanni Alþingis, í ljósi þess hvernig stjórnvöld og ráðherra fara með völd sín og niðurstöður umboðsmanns.

Það segir auðvitað einnig heilmikla sögu að umboðsmaður Alþingis neyðist til að setja sér sérstakar samskiptareglur gagnvart stjórnvöldum í kjölfar símtals frá þáverandi forsætisráðherra. Auðvitað er það háalvarlegt þegar hæstv. forsætisráðherra landsins hringir í umboðsmann Alþingis, sem er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir Alþingi, í kjölfar álits sem forsætisráðherrann var ósáttur við. Það segir allt sem segja þarf að umboðsmaður Alþingis sá sig tilneyddan til að leita til Alþingis eftir þetta símtal.

Umboðsmaður Alþingis er ekki einhver aðili úti í bæ sem forsætisráðherrann hæstv. getur ausið yfir úr skálum reiði sinnar þegar honum mislíka niðurstöður hans og síðan sagt að þetta hafi nú allt verið sagt í trúnaði og kæmi því engum við. Mér finnst þetta vera fyllilega sambærilegt og að ráðherra mundi hringja í dómara og kvarta yfir niðurstöðu hans.

Vegna þessa hefur umboðsmaður Alþingis neyðst til að setja sérstakar reglur í sex liðum, þar sem m.a. er kveðið á um að samtöl og fundir umboðsmanns Alþingis og forsvarsmanna stjórnvalda verði ekki haldin í trúnaði.

Í ársskýrslunni segir umboðsmaður að þessar reglur og viðmiðanir séu settar fram með það að markmiði að tryggja sjálfstæði umboðsmanns Alþingis í störfum og í samræmi við þá lagareglu að hann sé í störfum óháður fyrirmælum frá öðrum. Í reglunum kemur meira að segja fram að telji fyrirsvarsmaður stjórnvalds nauðsynlegt að greina umboðsmanni frá einhverju sem óskað er eftir að trúnaður gildi um, skuli almennt setja óskina fram skriflega og tilgreina ástæður.

Svona er ástandið orðið eftir meðferð ríkjandi valdhafa á áhrifavaldi sínu. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og það er með ólíkindum að umboðsmaður Alþingis þurfi að orða jafnsjálfsagða hluti og hér er um að ræða. Það sjá allir viti bornir menn.

Herra forseti. Ef rýnt er áfram í skýrsluna, sem að vanda er afskaplega vel unnin, kemur margt fróðlegt í ljós. Umboðsmaður Alþingis skráði tæplega 300 mál á árinu 2003 sem er ívið meiri málafjöldi en árið á undan en þá voru skráð 280 mál. 45 mál voru óafgreidd hjá embættinu í árslok.

Umboðsmaður tók sjálfur upp sex mál á árinu 2003 að eigin frumkvæði. Frumkvæðismál voru því aðeins um 2% allra málanna. Það vekur strax eftirtekt hversu fá frumkvæðismálin eru en það skýrist væntanlega af fjárskorti og skorti á mannafla.

Í greinargerð með lögunum frá árinu 1987 kemur fram að embættinu hafi verið ætlað að gera tillögur til endurbóta á stjórnsýslunni og þar gegnir þessi þáttur miklu máli. En það er alveg með ólíkindum að mínu mati að stofnun eins og umboðsmaður Alþingis skuli ekki vera gert hærra undir höfði þegar kemur að útdeilingu skattfjár. En þetta er hins vegar svipað og maður sér hjá stofnunum eins og Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitinu og jafnvel efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Maður hefði haldið að þessar stofnanir væru það mikils virði að þær ættu ekki að þurfa að glíma við fjárskort ár eftir ár, en það er raunin eins og allir vita. Meira að segja leggur stjórnarmeirihlutinn sig fram við að fella einstakar tillögur okkar um aukafjármagn til þessara stofnana.

Umboðsmaður Alþingis er þannig stofnun sem ætti að gera vel við, en embættið fær núna um 80 millj. kr. Til samanburðar má nefna af handahófi að Bændasamtökin, sem eru samtök úti í bæ, fá rúmlega fimm sinnum hærri upphæð en það sem umboðsmaður Alþingis fær, eða um 430 millj. kr.

Heildarfjöldi mála hefur tvöfaldast frá árinu 1990. Í skýrslunni kemur einnig fram að enn er of hátt hlutfall mála umboðsmanns sem lúta að töfum á afgreiðslu mála hjá viðkomandi stjórnvaldi eða um 17%. Það er auðvitað ótækt að þetta sé svo hátt hlutfall ár eftir ár en um 16 ár eru síðan embætti umboðsmanns Alþingis var stofnað og þess er skemmst að minnast að málshraðareglan er lögfest regla í stjórnsýslulögunum.

Einnig er eftirtektarverður kafli umboðsmanns um verklag til ráðningar opinberra starfsmanna en hann sér ástæðu til að fara aðeins yfir það.

Með leyfi forseta, segir umboðsmaður í skýrslu sinni:

„Ég hef orðið þess var í störfum mínum að stjórnvöld geri á stundum ekki fullnægjandi reka að því að innleiða nauðsynlegar breytingar á verklagi og starfsháttum við ráðningar í opinber störf í kjölfar þess að slík ákvörðun hefur sætt gagnrýni hjá umboðsmanni Alþingis eða dómstólum. Svo virðist sem stjórnvöld láti oftsinnis hjá líða að greina með fullnægjandi hætti þann annmarka í ráðningarferlinu sem gagnrýni eftirlitsaðila leiðir í ljós svo því sé kleift að standa betur að málum þegar kemur næst að því að taka sams konar ákvörðun. Á þetta jafnvel við þótt stjórnvöld hafi lýst því opinberlega yfir í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns eða dómstóls að gerðar verði ráðstafanir til þess að bæta þarna úr.“

Full ástæða er til að taka undir þau orð umboðsmanns að þessi málaflokkur verði tekinn föstum tökum því að annars er hætt við, eins og hann segir sjálfur neðar á síðunni, á bls. 24, „að áhugasamir einstaklingar láti vera að sækjast eftir störfum hins opinbera…“. En það er auðvitað öllum ljóst að hér er átt við þann darraðardans sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur boðið upp á þegar hefur komið að skipun hæstaréttardómara.

Umboðsmaður Alþingis lýsir áhyggjum sínum í skýrslunni yfir þeim vafa sem hann telur ríkja varðandi eftirlitshlutverk sitt gagnvart ákvörðunum sem eru teknar í almennri stjórnsýslu dómstóla. Hann kallar eftir því að Alþingi taki hér af skarið og útrými öllum vafa í því sambandi. Það ætti því að vera Alþingi bæði ljúft og skylt að taka þeirri áskorun og bregðast við þessu vafamáli.

Einnig er að finna þrjár tilkynningar í skýrslunni til stjórnvalda um meinbugi á lögum sem Alþingi þyrfti að skoða betur hafi þar ekki nú þegar verið bætt úr hjá viðkomandi stjórnvaldi.

Sem fyrr er langflest málin að finna hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eða um þriðja hvert mál. Að einhverju leyti er eðlilegt að hlutfallið sé hærra í því ráðuneyti en hjá öðrum en manni finnst samt þessi tala vera í hærri kantinum. Vonandi verður hægt að ná því hlutfalli niður hjá þessu mikilvæga ráðuneyti en þó hefur þróunin verið þannig undanfarin ár að hlutfallið hefur verið að hækka frekar en hitt.

Herra forseti. Að lokum er rétt að minnast þess að árið 2003 skilaði allsherjarnefnd áliti til fjárlaganefndar um fjárlögin en þar stóð, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur undir það sem komið hefur fram hjá umboðsmanni Alþingis um gagnsemi þess ef embættinu væri gert kleift að vinna úr þeim upplýsingum sem liggja í álitum og reifunum sem embættið hefur afgreitt allt frá árinu 1988 og ná þannig utan um þann þekkingarbrunn sem er þar fyrir hendi. Loks bendir nefndin á mikilvægi þess að umboðsmaður Alþingis og starfsfólk eigi kost á að miðla þeirri reynslu og þekkingu á efnis- og formreglum stjórnsýsluréttar sem er til staðar hjá embættinu.“

Þetta rataði hins vegar ekki í meirihlutaálit allsherjarnefndar núna rétt fyrir jólin af einhverjum ástæðum. Við í minni hluta allsherjarnefndar tókum þetta hins vegar upp í okkar álit en það er mikilvægt að okkar mati að gera þetta starf umboðsmanns mögulegt og ljúka því sem allra fyrst.