131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[16:26]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Embætti umboðsmanns Alþingis er mjög mikilvægt embætti. Hér er um að ræða eina af undirstöðustofnunum í lýðræðissamfélagi. Hún á að veita stjórnsýslunni og framkvæmdarvaldinu aðhald. Ég tek undir það sem oft hefur verið sagt og áréttað að mjög mikilvægt er að tryggja sjálfstæði þeirrar stofnunar. Meðal annars er að þessu sjálfstæði vikið í skýrslu umboðsmanns Alþingis sem segir að þegar á heildina sé litið séu samskipti stofnunarinnar við framkvæmdarvaldið hnökralaus, að jafnaði séu þau hnökralaus, en þó er svo að skilja að þar hafi verið undantekningar.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Það hefur komið fyrir í nokkrum tilvikum að viðtaka ráðherra á nýju áliti umboðsmanns Alþingis hefur orðið þeim tilefni símtals við umboðsmann. Það gefur auga leið að slíkt samtal tveggja manna í síma verður ekki sannreynt að efni til eða lagt til grundvallar viðbrögðum nema báðir aðilar séu sammála um það sem fram fór.“

Ég held að það viti allir hvers hér er verið að vísa til en ekki er svo ýkja langt síðan að í fjölmiðlum voru mjög til umræðu samskipti þessa embættis eða umboðsmanns Alþingis og forsætisráðherrans þáverandi. Það sem síðan hefur verið gert er að settar hafa verið verklagsreglur um þessi samskipti í sex liðum þar sem meginhugsunin, meginreglan er sú að samskipti umboðsmanns Alþingis og ráðherra eða fulltrúa framkvæmdarvaldsins skuli fara fram með formlegum hætti á fundi þar sem skráðar eru fundargerðir og fleiri en tveir til frásagnar um það sem fram fer. Ég held að mjög mikilvægt sé að koma slíkum samskiptum inn í skipulegan farveg eins og hér hefur verið gert og fagna ég því.

Það er ástæða til að staldra við athugasemdir umboðsmanns hvað varðar tafir á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Hann telur ástæðu til að hafa nokkrar áhyggjur af því ástandi sem endurspeglast í fjölda þeirra kvartana sem berast umboðsmanni og lúta einungis að því að stjórnvöld hafi ekki svarað eða afgreitt erindi frá borgurunum. Síðan er tilgreindur fjöldi mála og farið rækilega í þróunina og aðrir sem tekið hafa til máls nú í umræðunni hafa rakið þau efni og ætla ég ekki að endurtaka það.

Í máli umboðsmanns er vísað til starfsmannamála hjá hinu opinbera, verklags við ráðningu opinberra starfsmanna, eins og kaflinn heitir. Þar telur umboðsmaður Alþingis að pottur sé brotinn. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ég hef orðið þess var í störfum mínum að stjórnvöld gera á stundum ekki fullnægjandi reka að því að innleiða nauðsynlegar breytingar á verklagi og starfsháttum við ráðningar í opinber störf í kjölfar þess að slík ákvörðun hefur sætt gagnrýni hjá umboðsmanni Alþingis eða dómstólum.“

Það er ástæða til að fara í saumana á þessum málum. Reyndar tel ég að starfs- eða ráðningarmál hjá hinu opinbera þurfi að koma til skoðunar í ljósi þess sem þar er að gerast. Þannig háttar til að í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er kveðið á um heimild atvinnurekandans til að færa fólk til í starfi og breyta verksviði hjá einstaklingum. Þetta er heimilt að gera hjá almennum ríkisstarfsmönnum en einnig hjá embættismönnum. Hins vegar skal auglýsa störf þegar um slíka tilfærslu er a ræða, nema í undantekningartilvikum. Það er hins vegar að gerast, ég vísa þar t.d. til löggæslunnar, að undantekningin er að verða að hinni almennu reglu. Ég segi ekki að þetta gerist á hverjum degi en nokkur brögð eru að því að einstaklingar séu færðir til í starfi án þess að störf þeirra séu auglýst eins og í raun er kveðið á um í lögunum, þótt heimilt sé að víkja frá hinni almennu reglu við sérstakar aðstæður. Þetta er hins vegar að verða almenn regla og ég hvet til að umboðsmaður Alþingis eða eftirlitsaðilar með opinberri stjórnsýslu hugi sérstaklega að því.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um skýrslu umboðsmanns en ítreka að hér er um að ræða eina af undirstöðustofnunum í lýðræðissamfélagi. Ég tel mjög brýnt að vel sé að búið að henni.