131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Frjálslyndi flokkurinn stendur að minnihlutaáliti allsherjarnefndar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson hafa farið yfir og gert mjög málefnalega.

Ég ætla að forðast að fara yfir það á ný en ég undrast hér mjög að heyra ræðu hæstv. dómsmálaráðherra. Eftir að hér hafa verið færð málefnaleg rök fyrir áliti minni hlutans talar hæstv. dómsmálaráðherra um barnaskap. Það sýnir helst málefnafátækt hæstv. dómsmálaráðherra að geta ekki tekið málefnalega rökræðu um málið í staðinn fyrir að reyna að drepa því á dreif, slá sér á brjóst og segja viðmælendur hér á hinu háa Alþingi fara með einhvern barnaskap.

Það er óumdeilt að verið er að skerða réttindi almennings. Það er einnig óumdeilt að flest þeirra mála snúa að stjórnvöldum. Þess vegna er rétt að hæstv. dómsmálaráðherra svari því hvort hann sé í raun og veru, eins og öll teikn eru á lofti um, að forðast að fara í mál, þ.e. að almenningur sæki rétt sinn. Auðvitað vakna spurningar um það, sérstaklega í ljósi þess að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur oft og tíðum lent í dómsölunum vegna verka sinna. Þá ber hæst að hún hefur tapað í þrígang fyrir öryrkjum og nú stefnir í fjórða skiptið vegna svika, sérstaklega Framsóknarflokksins, við öryrkja þegar þeir sviku þá um 500 millj., brutu samning sem þeir handsöluðu rétt fyrir kosningar. Svo skreyttu þeir sig í blöðum með þessu handtaki, eða svikataki, í Morgunblaðinu og víðar.

Auðvitað eiga menn að svara fyrir raunveruleg markmið. Þau hafa ekki komið fram. Að vísu hefur komið fram að um einhvern sparnað sé að ræða, hugsanlegan sparnað, já. Hæstv. dómsmálaráðherra talar um að hann sé fulltrúi sparnaðar, hægri flokkurinn. Ef maður lítur yfir farinn veg ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, sér maður að þetta kompaní hefur ekki aldeilis verið að spara. Ríkisútgjöld hafa þanist út á valdatíma þessara flokka um heil 5% af þjóðarframleiðslu. Þetta eru bara staðreyndir sem fulltrúar þessara flokka hafa ekki reynt að hrekja en þeir hafa reynt að þegja þær í hel og þeir vilja ekki ræða þær.

Það er með ólíkindum að hæstv. dómsmálaráðherra tali hér um sparnað þegar verið er að svipta fólk möguleikum á að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum nokkrum vikum eftir að hann skipaði enn einn sendiherrann, enn einn flokksgæðinginn í stól sendiherra. Sparnaðurinn sem verður af þessum verkum við að svipta fólk réttindum til að sækja mál á hendur stjórnvöldum nær ekki útgjöldum af kostnaði eins sendiherra. Það er áhyggjuefni og í rauninni er skammarlegt að hæstv. dómsmálaráðherra komi hér og ræði um einhvern sparnað, nýbúinn að auka útgjöldin og er í sífelldum útgjaldaaukningum.

En það er rétt að líta til þess varðandi hvers konar málum t.d. núna þessa dagana er verið að koma í veg fyrir að menn sæki rétt sinn. Hvaða mál eru það? Mér dettur strax í hug að nú sé verið að koma í veg fyrir að bændur landsins og jarðeigendur nái að fá gjafsókn í sínum málum varðandi það að sjávarjarðir haldi réttindum sínum til sjósóknar, en eitt af verkum ríkisstjórnarinnar hefur verið að reyna hvað hún getur að koma í veg fyrir að sjávarjarðir haldi réttinum til að nýta auðlindirnar í kringum jarðirnar. Þessi réttur er festur í lög og hann er einnig festur í samþykktir stjórnarflokkanna. Þess vegna er svo sérkennilegt að e.t.v. er markmið þessarar gjörðar sem við erum að horfa upp á í dag einmitt að koma í veg fyrir að samþykktir sjálfra flokkanna nái fram að ganga. Það er í raun verið að gera grín að bændum og öðrum sem hafa tekið þátt í að færa þetta inn í samþykktir stjórnarflokkanna því þegar það er komið á hið háa Alþingi þá á ekkert að gera með þetta.

En hversu margir munu eiga rétt á að sækja rétt sinn gagnvart breyttum lögum? Það eru einungis efnalitlir einstaklingar. Það hefur verið rætt hér um 80 þús. kr. mánaðarlaun. En markið hefur víst verið túlkað rýmra og allt upp í 110 þús. kr. eða 1.100 þús. kr. á ári og þetta eru um 100 þús. kr. á mánuði. Það hefur komið fram á hinu háa Alþingi að innan við 10% þjóðarinnar eigi rétt á gjafsókn að breyttum lögum.

Upp úr stendur að hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki svarað fyrir raunverulegt markmið laganna. Hann hefur ekki svarað því hvort markmiðið sé í raun að skerða réttindi almennings eins og allt bendir til eða hvort einhver sparnaður sé í gangi. Ef maður horfir upp á verk ríkisstjórnarinnar, eins og áður segir, þá gengur sú röksemd ekki, því miður, því að ríkisstjórnin hefur alls ekki verið á þeim buxunum þessa dagana að hugsa til sparnaðar, því miður.