131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:36]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að uppbygging þessara þriðju kynslóðar kerfa hefur gengið illa. Þess vegna hef ég sagt að við höfum verið heppin að fara ekki af stað fyrr í þessu.

Hvers vegna hefur þetta gengið illa? Jú, annars vegar hefur það gerst vegna þess að efnt var til uppboða þannig að símafyrirtækin settu meiri partinn af peningum sínum í það að kaupa leyfin. Annars vegar tók það mjög á símafyrirtækin, og svo hins vegar það að tæknin gekk ekki eins upp og menn höfðu gert ráð fyrir. Þess vegna hefur þetta farið allt saman hægar af stað.

Núna virðist tæknin vera að ná sér á strik og það er á þeim forsendum sem ég segi að nú sé kominn tími til þess að við sköpum þetta umhverfi, sköpum lagarammann og aðferðafræðina þannig að hægt sé að gera símafyrirtækjunum grein fyrir því hvernig við ætlum að úthluta þessum leyfum og að ekki sé lengur nein óvissa í því fólgin.

Við vitum að ýmis fjarskiptafyrirtæki eru að hasla sér völl. Þar má náttúrlega nefna þessi tvö stóru símafyrirtæki, Símann og Og Vodafone, og þá er Orkuveitan hér í Reykjavík að fjárfesta í fjarskiptakerfum, Fjarski er í þessu og síðan önnur minni fyrirtæki eins og ég nefndi fyrr. Við eigum því ekki að útiloka það að fleiri komi á vettvang sem eru reiðubúnir til þess að fjárfesta í þessari þjónustu.

Mér finnst afar mikilvægt að þessi lagarammi sé algerlega klár þannig að við getum brugðist við þegar við finnum að þrýstingurinn kemur frá fjarskiptafyrirtækjunum (Forseti hringir.) og að þau séu tilbúin til að bjóða upp á þessa tækni.