131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki betur en hæstv. umhverfisráðherra hafi skautað hraustlega fram hjá því að svara spurningu hv. þingmanns því að sannarlega var ekki verið að biðja um útskýringu á íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni heldur var verið að biðja um að fá að vita hvað íslensk stjórnvöld ætli að gera til þess að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda á fyrsta skuldbindingatímabilinu fari ekki fram úr þeim heimildum sem við höfum. Sannleikurinn er auðvitað sá að stjórnvöld hafa verið að draga lappirnar í því að gera áætlanir um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Við vitum allt um stóriðjuákvæðið og við vitum allt um yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum. Fyrir nokkrum vikum kallaði hann það mikinn sigur að hafa fengið það ákvæði í gegn og að við værum fyrirsjáanlega ekki einu sinni að fullnýta það á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar.

En hvað eru stjórnvöld að gera í öðrum geirum? Hæstv. forseti, þau eru ekki að gera nokkurn skapaðan hlut og það kemur best fram í svari hæstv. umhverfisráðherra nú.