131. löggjafarþing — 61. fundur,  26. jan. 2005.

Áfengislög.

46. mál
[15:53]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Eins og nokkrum sinnum áður mæli ég fyrir tiltölulega litlu máli. Ég hef stundum í gamni og reyndar alvöru, hæstv. forseti, kallað það „litla bruggmálið“ en í raun og veru snýst það ekki um slíkt. Að vísu er það um heimild til að mega framleiða léttvín á íslenskum heimilum, gera það löglegt sem fjöldi Íslendinga gerir í dag en er ólöglegt, að framleiða sín eigin matarvín. Málið snýst auðvitað einnig um þá þekkingu sem til er í landinu, einkum hjá mörgum húsmæðrum og ég tala nú ekki um fólkið sem býr í dreifbýli eða sveitum sem hefur gert það að áhugamáli sínu að leitast við að framleiða matarvín úr ýmsum íslenskum jurtum og berjum.

Satt að segja, hæstv. forseti, og verð ég þá að upplýsa að ég hef náttúrlega smakkað á veigum sem hafa verið framleiddar ólöglega, hafa margar af þeim víntegundum sem bornar hafa verið á borð fyrir þann sem hér stendur með mat á íslenskum heimilum verið hrein snilld að mínu viti og hafa í rauninni smellpassað með íslenskri villibráð og íslenska lambakjötinu og svo sem fleiri matartegundum. En það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, eða við teljum það sem flytjum þetta mál, að með því að afnema það að fólk sé að brjóta lög þó að það framleiði vín með allt að 15% styrkleika þá værum við að opna fyrir eðlilega framleiðslu í heimilisiðnaði því hér er ekki verið að opna á það að slík vín séu seld, þá værum við komin í allt annan farveg og undir allt aðrar reglugerðir og lög, heldur að fólk megi framleiða sitt eigið vín og bera það á borð á heimilum sínum og bjóða það gestum og gangandi og það teljist ekki lögbrot. Ef það yrði gert held ég að opnaðist mikil þekking og í raun og veru kæmu upp á yfirborðið hæfileikar til að framleiða íslenskt matarvín sem núna er oft og tíðum falið þó að vissulega sé það svo að fjölskyldur vítt og breitt um landið starfi saman í klúbbum þar sem fólk framleiðir hin ýmsu vín og sum af þeim fara nú sennilega yfir 15% styrkleikann, en þá erum við frekar að tala um að fólk sé að gera tilraunir með að búa til líkjöra af ýmsum gerðum, m.a. líkjöra úr fíflum svo eitthvað sé nefnt.

Ég tel að þarna sé því eftir þó nokkru að slægjast og ég held að ef mönnum væri leyft að vinna þetta eðlilega og þessi heimilisiðnaður teldist ekki lögbrot værum við að opna fyrir ákveðna þekkingu og það gæti vel verið að þegar sú þekking væri komin upp á yfirborðið sæju einhverjir sér hag í því að stofna til atvinnurekstrar um það að framleiða léttvín en þá yrðu menn auðvitað að fara í annan farveg og sækja um tilheyrandi leyfi og uppfylla hreinlætisaðstöðu og aðra starfsaðstöðu sem þarf til að menn geti framleitt vöru sem seld er hverjum sem hafa vill undir þeim lögum og reglum sem við nú höfum um áfengiskaupaaldur hér á landi.

Með þessu aukna frelsi held ég að við værum aðeins að gera gott eitt því að staðreyndin er að í þessu máli er heimilt að selja tækin og tólin en mönnum er hins vegar bannað að nota þau. Þetta er náttúrlega algjör hráskinnaleikur og ég átta mig alls ekki á því hvers vegna mér hefur gengið svo ofur illa að fá einn einasta framsóknarmann til að vera á þessari tillögu með mér, en það hefur ekki tekist núna í ein þrjú eða fjögur ár. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir, þ.e. flutningsmenn úr öllum flokkum nema Framsóknarflokknum og hélt ég sá flokkur hefði einu sinni staðið fyrir það að standa með íslenskum bændum og dreifbýlisfólki og heimilisiðnaði og íslensku framtaki. En það kann að vera að eitthvað annað þurfi til og því miður hefur hæstv. landbúnaðarráðherra ekki alltaf orðið vel gott af pylsunum og öðru sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.

Ég lít svo á, og við sem flytjum þetta mál, að hér sé verið að hreyfa ákaflega þörfu máli þó að það hafi stundum fengið gælunafnið litla bruggmálið eins og ég vék að í upphafi. Ég held að það sé bara til þess að varpa ljósi á það hve málið er í raun og veru smátt í sniðum vegna þess að við erum einfaldlega að leggja til að það verði viðurkennt sem framkvæmt er í landinu og heimiluð sú kunnátta sem felst í þekkingu fólks hér á landi til að framleiða íslenskt matarvín og teljist ekki lengur lögbrot, að sú þekking geti komist upp á yfirborðið, og vonandi sjá sér þá einhverjir færi á því að sækja um leyfi og stofna til atvinnurekstrar sem e.t.v. gæti gefið af sér þó nokkur verðmæti í þessa veru.

Ég ætla að leyfa mér að upplýsa það, hæstv. forseti, án þess að nefna stað, stund eða nöfn fólks, að ég tók þátt í afmælisveislu í sumar þar sem borin voru á borð fyrir yfir 100 manns heimagerð vín sem húsmóðirin hafði séð um að framleiða, bæði rauðvín úr berjum, krækiberjum, og hvítvín úr rabbarbara. Ég held að ég geti sagt með sanni að þau vín voru ákaflega ljúffeng og pössuðu mjög vel með þeirri heimagerðu framleiðslu sem framleidd var á þeim bæ sem veislan var haldin frá. Ég fullyrði að það hefði hver Íslendingur haft fullan sóma af því að kaupa sér slíkt vín í vínbúð, hefði það verið til sölu, og ekki verið svikinn af þeirri vöru. En svona er það, þekkingin er víða til staðar en fólki er meinað að nýta sér náttúrugæðin til að gera þau að verðmætri vöru og koma þeirri framleiðslu í verð. Það er afar leitt, hæstv. forseti, að við skulum vera svo þröngsýn hér á landi, þar sem oft er talað um tækifæri fyrir þá sem hafa hugmyndaflug og frumkvæði, að loka svona litlu máli sem gæti þó orðið til góðs og að ég held engum til skaða þó að hann fengi nokkra víndropa framleidda úr íslenskum berjum og jurtum.