131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:36]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kemur fram að við breytinguna úr 50 þús. kwst. niður í 35 þús. kwst. lækki niðurgreiðslurnar um 57 millj. kr. Við þær breytingar hækkar jafnframt húshitunarkostnaður þeirra húseigenda um 57 millj. kr. Það er gott að fara í einangrunarátak og allt það en því getur fylgt mjög mikill kostnaður og stundum eru þeir peningar ekki til til að fara í þær aðgerðir. Oft á tíðum er þetta því miður eins og ég sagði áðan eldra fólk sem býr í stóru húsnæði úti á landi, að ég tali nú ekki um bændur.

Hitt atriðið, vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um breytingarnar sem verða hjá Orkuveitu Reykjavíkur og annars staðar, þá hefur komið fram í fréttum að Rafmagnsveitur ríkisins urðu að hækka gjaldskrá sína, einkaleyfisþáttinn, úr 3,40 kr. á kwst. í 3,60 kr. Hvað er þetta, 6%–7% hækkun? Af hverju skyldi Rarik hafa þurft að gera þessa hækkun eftir á, fyrir nokkrum dögum? Jú, vegna þess að Orkuveita Reykjavíkur var komin með þennan taxta í 3,60. Þá var Rarik að hækka þetta um 20 aura, leggja þyngri byrðar á íbúa landsbyggðarinnar vegna þess að Orkuveita Reykjavíkur er komin í 3,60. Halló, halló, á hvaða vegferð erum við? Bíðum við, af hverju er viðurkennt að dreifikostnaður Orkuveitu Reykjavíkur sé margfalt hærri en hjá Rarik undanfarin ár og þó starfar Rarik á landsbyggðinni þar sem ætti að vera dýrara að dreifa?

Hér er því maðkur í mysunni sem er full ástæða til að fara í gegnum og verður að sjálfsögðu ekki gert, virðulegi forseti, úr ræðustól Alþingis. Það er verkefni Orkustofnunar (Gripið fram í: Spyrja Reykjavíkurlistann.) Ég skal spyrja Alfreð Þorsteinsson á morgun því þingflokkur Samfylkingarinnar fer í heimsókn til Orkuveitu Reykjavíkur klukkan hálfníu í fyrramálið, og mætti ég kannski bjóða hæstv. iðnaðarráðherra með í þá heimsókn til að ræða þetta?