131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:47]

Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hún hefur flutt þinginu um þetta mikilvæga málefni sem breytingar á raforkumarkaði eru. Ég vil jafnframt taka undir það sem hér hefur komið fram að ýmsir notendur raforku í dreifbýli mundu að óbreyttu fara illa út úr þeim kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið á skipan raforkumála og er ákaflega brýnt að finna lausn á því og bæta notendum upp þann kostnaðarauka sem af þessum breytingum hlýst.

Ég vil benda á og það hefur raunar komið fram í umræðunni að hér er um að ræða þá íbúa landsins sem síst mega við hækkunum af þessu tagi. Þetta eru þeir sem fyrir búa við lökust kjör og hafa minnsta möguleika til að auka tekjur sínar. Þetta eru líka þeir íbúar sem nú þegar bera meiri fjárhagslegar byrðar af ýmsu tagi en fólk í þéttbýlinu syðra. Þau áhrif sem þessar breytingar hafa á atvinnugreinar eins og garðyrkju og fiskeldi eru að hluta til enn óljós en hafa svolítið skýrst í umræðunni í dag. En þetta hvort tveggja er til skoðunar og ég treysti því að allra leiða verði leitað til að lágmarka þann kostnaðarauka sem þessi kerfisbreyting hefur í för með sér og ég veit að þeir hæstv. ráðherrar sem hlut eiga að máli og ríkisstjórnin öll hefur fullan vilja til að bæta úr þessu og því ber að sjálfsögðu að fagna.

Það er eitt sem ég vil þó benda á í þessu samhengi og halda til haga, raunar kom hæstv. ráðherra inn á það í máli sínu áðan. Það er að í gamla kerfinu var jöfnun á raforkuverði á svæði Rariks fengin m.a. með því að þéttbýlið greiddi hærra raforkuverð til að standa straum af niðurgreiðslum í dreifbýli. Þannig voru einungis sumir íbúa landsins látnir greiða niður hærri kostnað við dreifingu í dreifbýli. Slíkt fyrirkomulag getur ekki verið eðlilegt og er sjálfsagt að breyta því. Þegar þessi óréttláta jöfnun hefur verið afnumin er ljóst að raforka á þessum svæðum lækkar almennt, bæði til almennra notenda og einnig til fyrirtækja. Þetta á raunar ekki bara við um svæði Rariks heldur á þetta einnig við að einhverju leyti á svæði Orkubús Vestfjarða. Þessi lækkun getur numið allt að 20–25% og það er býsna mikið.

Þessi kerfisbreyting hefur því á sér bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Hún leiðir ekki bara til hækkunar heldur sums staðar til lækkunar og það er auðvitað gleðilegt, ekki bara fyrir hinn almenna notanda heldur ekki síður fyrir fyrirtækin á þessum svæðum því að lækkun sem þessi treystir auðvitað rekstrargrundvöll þeirra og gerir þau samkeppnishæfari og treystir þannig byggðina í landinu. Það er mikilvægt að benda á þetta og halda því til haga.

Annað mál og sérmál er það hvernig orkufyrirtækin haga gjaldskrám sínum og hvernig þau nýta sér þessa kerfisbreytingu til breytinga á töxtum. Ég spyr auðvitað eins og aðrir hvort þau séu að nýta sér þetta tækifæri til að hækka gjaldskrár sínar. Að minnsta kosti verður að vera ljóst hvað það er nákvæmlega sem veldur þeim hækkunum sem verða í kjölfar breytinganna og þessar breytingar gera í raun ráð fyrir að allur kostnaður í þessu kerfi verði sýnilegur og uppi á borðinu og það er að sjálfsögðu gott.

Ég legg mikla áherslu á að niðurgreiðslur til þeirra notenda sem sjálf kerfisbreytingin bitnar á með mestum þunga komi úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna. Ég legg líka áherslu á að í því fyrirkomulagi sem haft verður á niðurgreiðslum sé einhver hvati til að fara vel með rafmagn, það sé hvati til þess að við förum betur með þau gæði sem orkan er og við séum meðvitaðri um hvernig við nýtum þau og jafnframt er mikilvægt að í kerfinu sé einhver hvati til að leggja hitaveitur þar sem það er mögulegt og ég vil fagna þeim áformum sem hæstv. ráðherra lýsti áðan, að fara ætti í átak í þessa veru af hálfu ráðuneytis og Orkustofnunar.

Frú forseti. Ég hef þá trú að til lengri tíma litið muni þessi breyting leiða til aukins hagræðis, aukins gagnsæis og til aukinnar hagkvæmni landsmönnum öllum í hag.