131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:20]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á það ef orkufyrirtækin yrðu sameinuð, eins og hæstv. ráðherra var að boða að væri draumur sinn, að sameina Orkubú Vestfjarða, Rarik og Landsvirkjun og síðan þegar búið væri að hlutafélagavæða að selja fyrirtækið — fín markaðsvara með eiginlega allan raforkumarkaðinn í landinu og hægt að vera með nánast einokun á markaðnum fyrir raforku — og af því að hv. þingmaður er búsettur og uppalinn á Vestfjörðum hvernig lítur þingmaðurinn á þetta, heldur hann að það mundi styrkja mjög stöðu Vestfirðinga hvað varðar öryggi í raforkudreifingu, öryggi í afhendingu á rafmagni og öryggi í verði? Mundu Vestfirðir verða mjög eftirsóttur staður til að þjóna og byggja upp þjónustu á miðað við aðra landshluta ef þetta yrði allt sameinað í eitt fyrirtæki? Hvernig sér hv. þingmaður hlut Vestfjarða í því?

Við höfum dæmi erlendis frá þar sem þessi leið hefur verið farin. Hvað er það fyrsta sem gert er? Fyrirtækið er holað að innan, það er dregið úr viðhaldi, dregið úr afhendingaröryggi, öryggisvörðum er fækkað og viðbragðsflýtir til viðgerða er það fyrsta sem dregið er úr. Rafmagnsleysið í Danmörku og Svíþjóð í óveðrinu er einmitt talið að hluta til af því að búið er að einkavæða raforkukerfið og afhendingaröryggið og viðbragðsflýtirinn er miklu minni. Hvernig sér hv. þingmaður Vestfirði fyrir sér ef sá draumur hæstv. ráðherra yrði að raunveruleika að Orkubú Vestfjarða yrði selt og látið inn í eina slíka hít og fyrirtækið síðan selt hæstbjóðanda?