131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Einhvers staðar stendur að það skuli vel vanda sem lengi eigi að standa. Ég held að það megi segja það um vatnalögin, nr. 15/1923, að þau hafi sannarlega staðist tímans tönn og verið vönduð og ekki hafi verið kastað til þeirra höndunum á sínum tíma, enda eru þau með merkari löggjöf af sínu tagi og kannski ekki síst fyrir það hversu framsýn þau voru og hve mikla umhverfisvernd er að finna í þeim. Þau voru á margan hátt langt á undan sínum tíma, t.d. með áherslunni sem lögð er á það í vatnalögunum gömlu að vatnsföll fylgi náttúrulegum farvegum sínum.

Ég beið því með nokkrum spenningi þegar fréttist af því að væntanleg væri endurskoðun á vatnalögum. Reyndar fletti ég fyrst upp á því hvort hin fallegu upphafsorð núverandi 7. gr. vatnalaganna, sem hljóða svo, með leyfi forseta: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið“, væri enn að finna í tillögum að nýjum vatnalögum. Svo er reyndar í 13. gr. þessa frumvarps og þakka ég fyrir það. Miður hefði manni þótt að þessi fallega, góða íslenska hefði tapast. Hitt er svo annað mál að menn hafa ekki alltaf farið vel eftir þessu.

Hæstv. ráðherra var eitthvað beyglaður yfir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir innti eftir skilningi iðnaðarráðherra á hugtakinu „sjálfbær þróun“. Ekki fannst mér ástæða til þess hjá hæstv. forseta. Það er nú almannarómur að ekki bara hæstv. iðnaðarráðherra heldur allur Framsóknarflokkurinn eins og hann leggur sig hafi mjög glatað niður skilningi sínum á þessu hugtaki. Sumir vilja meina að þekkingin á þessu hafi horfið út úr forustu Framsóknarflokksins með Steingrími Hermannssyni. Ekki skal ég um það deila. En framferði flokksins í umhverfis- og atvinnumálum undanfarin ár gefur sannarlega tilefni til að spurt sé.

Síðan komu þessar kostulegu bollaleggingar um að nýta og vernda. Menn setja sig í spekingslegar stellingar, hvort sem það er nú iðnaðarráðherrann eða hæstv. núverandi umhverfisráðherra og telja sig hafa algerlega höndlað sannleikann með því að þetta fari saman og segja að það sé alveg sérstök hugmyndafræði í þessum efnum að þetta fari saman. Er þá verið að halda því fram, var hæstv. iðnaðarráðherra að halda því fram áðan, að þetta fari alltaf saman? Er t.d. bæði hægt að veita vatninu úr Jökulsá á Fjöllum austur á Hérað, um Arnardal og vernda Dettifoss? Nei.

Það er nefnilega þannig og er auðskilið hverjum manni sem hugsar þetta eitthvað að stundum fer þetta prýðilega saman, stundum miður og stundum alls ekki. Svo verða menn líka að skilgreina: hvað eiga þeir við með orðinu nýting? Sum nýting getur farið prýðilega saman við umhverfisvernd og önnur ekki. Það er nýting út af fyrir sig að leyfa fallegu vatnsfalli að njóta sín og vera aðdráttarafl fyrir ferðamenn eða hvað það nú er — eða geyma það á vöxtum til komandi tíma þegar mögulega annars konar nýting þess gefur kannski af sér miklu meiri arð en það sem menn sjá fyrir sér í dag. Flóknara finnst mér þetta nú ekki vera.

Það er þegar kemur að því að þetta fer ekki saman sem leiðir skilja gjarnan og þá skilja þær á grundvelli þess að sumir eru tilbúnir til að fórna meiru en aðrir í þágu einhverrar nýtingar jafnvel með skammtímaávinning í huga.

Ég hef stundum tekið annað dæmi af nýtingu og síðan verndun sem augljóslega fer ekki saman eða fór ekki saman hér við bæjardyr Reykvíkinga sem eru Rauðhólarnir, merkilegir gervigígar rétt ofan við bæinn. Það var nefnilega þannig að menn áttuðu sig á því — fullseint að vísu — um miðbik síðustu aldar að það fór ekki saman sú nýting á Rauðhólunum að moka þeim upp í húsgrunna eða undirlag undir flugvöll í Reykjavík og vernda þá. (Gripið fram í.) Stór hluti af þeim fór í flugvöllinn en þeir voru líka vinsælt fyllingarefni í húsgrunna, t.d. í Mýrinni sjálfsagt, þó að þeir hafi nú ekki verið notaðir í húsið í skáldsögunni frægu því að þar seig undirlagið fullmikið eins og við munum. Þetta er akkúrat dæmi um nýtingu sem alls ekki fer saman við verndina í bókstaflegum skilningi og augljósum og skiljanlegum hverjum manni.

Þannig er þetta og alveg eins er með vatnsföllin að hlutir glatast með nýtingu, t.d. ef vatnsföll eru flutt úr sínum náttúrulega farvegi. Ef þeim er miðlað, jafnvel þótt þau renni síðan áfram niður sama farveg neðan miðlunarinnar, þá glatast hinir náttúrulegu rennslishættir. Þá er spurningin: Er því til fórnandi, borið saman við þann ávinning sem menn telja sig vera að hafa af slíku? Allt þarf þetta auðvitað að vega og meta saman og mér finnst einföldun, ofureinföldun á málum af þessu tagi að setja sig í spekingslegar stellingar og segja: Ég er svo skynsamur og víðsýnn af því að ég vil bæði nýta og vernda, og þar með sé málið leyst. Það er nú ansi grunnt í hlutina farið. Við skulum frekar ræða þá nákvæmlega. Um hvað erum við að tala? Hvers eðlis er nýtingin í hverju tilviki og hversu vel, illa eða alls ekki fer hún þá saman við eiginlega verndun viðkomandi náttúruverðmæta?

Það verður að segjast að í þessu frumvarpi, eins og reyndar hefur verið bent á af fyrri ræðumönnum, svífur ansi mikill nýtingarandi yfir vötnum og umhverfisverndarhliðin kemur hér ákaflega veikt fyrir. Iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun ætla sér öll völd í þessu máli og reyndar er það umhugsunarefni sem hv. þm. Mörður Árnason fjallaði áðan um, hvert Orkustofnun er að þróast í gegnum þau verkefni sem verið er að dæla inn á hana með lögum einmitt núna þessi missirin. Ég sé ekki annað en að býsna annasamt sé að verða á því búi og Orkustofnun sé að verða ansi mörgum megin við borðið þegar hún er í öllum sínum stjórnsýslu-, ráðgjafar-, stjórnunar- og skömmtunarhlutverkum sem nú er verið að moka inn í hana, t.d. í raforkumálunum og svo er svipað á ferðinni hér.

Vatnsverndarfrumvarpið er ekki komið fram og hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að afgreiða þá hluti með því að segja að það sé eitthvert leiðindanöldur í mönnum að biðja um að hlutirnir séu skoðaðir í samhengi og að mál sem hanga saman og snerta mismunandi hliðar á sama málasviði hafi samfylgd í gegnum þingið. Ég bara aldeilis mótmæli því. Það er nú gömul og góð verklagsregla að reyna að sjá hlutina fyrir sér í heild og láta hlutina hanga saman. Og auðvitað er það ekki rétt röð á hlutunum og engan veginn til fyrirmyndar að slíta þetta svona úr samhengi. Ég tel fulla ástæðu til að gagnrýna það að þetta sé þá ekki látið verða samferða hér í gegnum þingið og viðkomandi nefndir sem gætu þá unnið málin að einhverju leyti saman, umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd, gætu haft þetta allt undir því að vissulega spilar þetta mikið saman bæði hvað varðar stjórnsýslu og þátt hvers og eins.

Ég vík þá aðeins að vatni, herra forseti, og hvað þar er á ferðinni. Í grunninn er vatn, þ.e. hreint og gott drykkjarvatn og vatn til heimilisþarfa, ein af undirstöðum velmegunar og farsæls lífs á jörðinni. Það er mönnum að verða æ betur ljóst eftir því sem þessi gæði eru víða vandfundnari í heiminum og kannski um milljarður manna sem líður bókstaflega fyrir það á hverjum degi að hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Annar milljarður, ef ekki einn og hálfur í viðbót, þarf að leggja á sig gífurlegt erfiði til að afla sér daglegra þarfa í þessum efnum. Konur í Afríku ganga sumar sex, átta klukkustundir á dag á degi hverjum til að sækja vatn og bera það í fötum, bökkum, skjólum eða hvað það nú er, jafnvel á höfðinu, handa sér og fjölskyldu sinni.

Þess vegna hafa menn á alþjóðavísu tekið það upp að vatnið eigi að skilgreinast sem sameiginleg auðlind og að réttur manna til vatns þurfi að skilgreinast. Heilmikil vinna hefur farið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir tilstyrk Alþjóðabankans og fleiri slíkra aðila sem eru farnir að nálgast þetta viðfangsefni á þennan hátt. Ég er þeirrar skoðunar að alveg hiklaust eigi að taka inn í lög hér á landi eins og annars staðar rétt manna til vatns. Hann eigi að vera grundvallarréttur og tryggður í lögum eða þess vegna stjórnarskrá. Þó að ástandið hér sé bærilegt nú um stundir í þessum efnum breytir það ekki því að ég tel að við eigum ekki bara að taka þátt í því með íbúum jarðarinnar, heldur — einmitt af þeim ástæðum — að reyna að vera í forustusveit þeirra sem berjast fyrir því að réttur manna til vatns verði skilgreindur og bundinn í lögum og alþjóðasáttmálum.

Ég vil upplýsa það að í Norðurlandaráði lögðum við í síðustu viku, ég og flokkssystkin mín þar í flokkahópi Vinstri grænna, fram tillögu um rétt manna til vatns og að hann verði skilgreindur og að bæði Norðurlandaráð sem slíkt og Norðurlöndin í sameiningu sem og hvert fyrir sig leggi sitt af mörkum í þessum efnum með því að taka slík ákvæði upp í lög og með því að beita sér fyrir þessu á alþjóðavettvangi. Þess vegna held ég að sú umræða sem hér fer fram sé mikilvæg og þar eigum við t.d. að taka spurninguna um grunnvatnið og um neysluvatnið til drykkjar og heimilisþarfa alveg sérstaklega fyrir. Spurningin er sú hvort ekki þurfi að koma inn miklu sterkari ákvæði sem tryggja stöðu manna í þessum efnum og víkja einkaeignarréttinum eftir atvikum til hliðar í þágu almannahagsmuna.

Almannarétturinn á Íslandi er mjög veikur eins og við þekkjum, miklum mun veikari en t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Menn fara ekki á Íslandi inn á landareign manna og tína ber eins og menn hafa beinlínis lögformlegan rétt til, segjum í Svíþjóð. Þar er manni frjálst að fara um utan lóða og afgirtra heimalanda og tína t.d. ber, það er óháð einkaeignarrétti á landi.

Hér er gengið alllangt í því að súrra gömlu einkaeignarréttarákvæðin saman og í raun styrkja þau á vissan hátt með því að taka þarna inn grunnvatnið með þeim hætti sem gert er og með því að sá forgangur sem þó helst varðar vatnsréttindin til heimilis- og búsþarfa er í raun veiktur eins og mér sýnist þetta líta út hér og því er ég aldeilis andvígur. Miklu nær fyndist mér að fara einmitt í hina áttina og styrkja stöðu manna, við getum sagt bæði ábúenda og ekki síst sveitarfélaganna til þess að afla neysluvatns án bóta, án greiðslna, því að mér finnst það vera komið út yfir allan þjófabálk ef menn ætla að fara að fénýta í stórum stíl drykkjarvatn sem notað er t.d. innan byggðarlags. Ég sé ekki betur en að boðið sé upp í þann dans með þessu frumvarpi og það undrar mig mjög.

Hæstv. ráðherra var að hæla frumvarpinu og tala um hvað það væri vandað og gott og vel samið í alla staði en ég er nú ekki alveg sammála því, því miður, þrátt fyrir stutta athugun á því. Ég nefni þar sérstaklega t.d. 15. greinina. Hún er ruglingsleg. Því er að vísu haldið inni að vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gangi fyrir annarri vatnsnýtingu, það eru einu forgangsréttarákvæðin sem í raun og veru eftir standa í lögum ef þetta verður svona sett.

En það er líka talið upp og gert skýrt að þegar beitt er eignarnámsheimildum, t.d. þegar eigandi fasteignar sem ekki hefur aðstöðu til vatnsöflunar á sínu landi nýtir rétt sinn til að fara yfir á land annars og fá þar vatn, þá stendur í 15. gr., með leyfi forseta:

„Þegar svo hagar til getur eigandi þeirrar fasteignar sem vatn er tekið úr krafist bóta, þar með talið fyrir tjón og óþægindi sem framkvæmdin bakar honum.“

Ég vek athygli á þessu orðalagi „þar með talið fyrir það tjón og óþægindi sem framkvæmdin bakar honum“. Með öðrum orðum, látið er að því liggja að bæturnar geti tekið til fleira. Til hvers? Hvað er það þá annað en að verið er að gefa því undir fótinn að eigandinn innheimti beinlínis greiðslur fyrir vatnið? Ég sé ekki annað.

Ég fletti auðvitað upp á athugasemdum um 15. gr., af því að þetta er svo vel samið frumvarp, segir ráðherrann, og þá hlyti þetta að skýrast.

En hvað stendur þar?

„Hagsmunir eiganda þeirrar fasteignar sem vatn er tekið úr eru tryggðir“ — við sambærilegar aðstæður — „með því að hann á rétt á bótum fyrir tjón og óþægindi sem verkið bakar honum.“

Til hvers er þá verið að vísa með orðunum „þar með talið“ í 15. grein, „tjón og óþægindi“? Hér er misræmi á ferðinni. Skýringin við 15. gr. passar ekki við orðanna hljóðan í frumvarpstextanum sjálfum. Ég vil fara rækilega yfir það hver er hugsunin þarna að baki. Þetta verður a.m.k. ekki afgreitt svona óbreytt mótmælalaust af minni hálfu nema þá að lögskýring sé alveg óhrekjanleg, að ekki sé ætlunin að fara að opna á það að menn fari af stað með bullandi kröfugerð um leigutekjur af vatnsbólum sem menn hafa hingað til beislað og nýtt án endurgjalds. Ég fullyrði að það eru tugir ef ekki hundruð vatnsveitna í landinu sem nýta vatnsból í landi annarra aðila sem gera það án greiðslna, t.d. mjög mörg sveitarfélög.

Nú vill svo til að ég þekki dæmi þess að landeigendur hafa reynt að pína sveitarfélög til að fara að borga sér leigutekjur og það hafa staðið yfir deilur út af slíku á a.m.k. tveimur stöðum sem ég þekki til en ætla ekki að nafngreina. Er þá virkilega ætlun Alþingis að fara að opna fyrir það, galopna fyrir að slík kröfugerð hefjist upp, ef ekki afturvirk þá a.m.k. gagnvart framtíðinni? Ég held að menn verði virkilega að átta sig á inn á hvaða spor menn ætla með þessi mál. Mér sýnist að það sé miklu frekar þörf fyrir að fara í gagnstæða átt, styrkja almannaréttinn, styrkja stöðu sveitarfélaga og tryggja öllum þennan aðgang að hollu og góðu vatni til grunnþarfa.

Allt öðru máli gegnir þegar um iðnaðarþarfir eða orkunýtingu er að ræða. Það eru að mínu mati algjörlega ósambærilegir hlutir við þá sem snúa að rétti almennings til neysluvatns.

Nú er það einnig svo, herra forseti, að land er að sópast saman með miklum hraða á hendur fárra einkaaðila um þessar mundir. Nú eru í fyrsta skipti í sögunni að verða til einkaaðilar, fyrirtæki og einstaklingar sem hafa sankað að sér jafnvel tugum bújarða. (Gripið fram í.)

Auðvitað var slík þróun hér. Hún grasseraði mjög á miðöldum, það er rétt, og ekki ætla ég að mæla því bót þegar kirkjan og kóngsi og stóreignamenn voru að sanka að sér jarðnæði. Ég hélt að það væru tímar sem ekkert okkar langaði til að bakka aftur á, hinar dimmu miðaldir þegar obbi landsmanna voru ánauðugir leiguliðar og máttu sig hvergi hræra vegna landeigendaaðalsins og þeirra kvaða sem hann lagði á menn að vinna fyrir þá kauplaust, fóðra fyrir þá fé o.s.frv.

Þetta er samt veruleiki að land, jarðnæði, eignarréttur á landi er að sópast saman með miklum hraða á hendur stóreignamanna, fyrirtækja og einstaklinga um þessar mundir. Það er ávísun á árekstra í þessum efnum ef almannarétturinn er ekki skýr þar sem hann þarf að vera til staðar. Það er ekki nóg að vitna bara í hin fornu ákvæði Jónsbókar um rétt manna til að fara um landið, fleira kemur til. Menn þurfa a.m.k. að hafa leyfi til að fá sér vatnssopa þó þeim sé frjáls umferðin, við vitum það.

Ég tel að þarna þurfi að fara mjög rækilega yfir hlutina og ekkert liggi á í þessum efnum. Það þarf ekkert óðagot að viðhalda hér og allra síst er við hæfi ef á að fara að breyta jafngagnmerkri löggjöf og jafnvandaðri og jafnfallega orðaðri og vatnalögin nr. 13 frá 1923 voru og eru.