131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[19:08]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið og fróðlegu. Hún minnti mann á köflum helst á kennslustundir í uppeldis- og kennslufræði þegar menn ræddu af tilfinningu um viðhorf sín til þess hvernig best væri nú staðið að uppeldi og fræðslu ungra barna. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Flestir lýstu stuðningi við málið, sumir án fyrirvara, aðrir kannski meira skilyrt og einhverjir voru nú, satt best að segja, ekki afdráttarlausir í sínum stuðningi ef stuðning skyldi kalla, einkum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir hv. þingmenn. Sigurður Kári Kristjánsson og Pétur H. Blöndal.

Ég vil koma inn á nokkur atriði sem þingmenn drápu á. Í fyrsta lagi upplýsti hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um þróun þessara mála hér síðastliðin tíu ár. Það er fróðlegt og áhugavert og á fullt erindi inn í þessar umræður að skoða hvernig okkur hefur miðað og hvar við erum á vegi stödd í samanburði við önnur Norðurlönd. Ég hef mjög þá sömu tilfinningu og fram kom í máli hennar, að þar hafi hlutirnir gjörbreyst og að við stöndum nú mun betur að vígi í öllum samanburði hvað þetta varðar.

Eftir stendur hitt og það bar líka á góma, kannski í öðru samhengi, að á hinn bóginn hefur Ísland ekki hætishót komist í áttina að styttri vinnuviku og minna álagi á fjölskyldurnar þar sem báðir foreldrar vinna úti og yfirleitt langan vinnudag. Meðalvinnuvikan á Íslandi hefur heldur lengst ef eitthvað er og er í kringum 48 stundir hjá almennum launamönnum. Þannig vinna ýmsar stéttir á Íslandi um mánuði lengur, svo reiknað, á ári hverju en sambærilegar starfsstéttir á hinum Norðurlöndunum. Íslenskir iðnaðarmenn vinna t.d. mánuði lengur en danskir o.s.frv. Ætli þar sé nú ekki vandinn og ef menn ræða um það sem varhugaverðan hlut að börnin séu allt niður í eins árs gömul í níu klukkustundir á dag á leikskóla þá held ég að sökudólgurinn sé ekki leikskólinn og tilvist hans og sú staðreynd að það úrræði eða sá möguleiki er til staðar fyrir þessa foreldra. Ætli vandi þeirra væri ekki enn þá meiri og hag þessara barna jafnvel verr borgið í mörgum tilvikum ef ekki væri þó þetta úrræði?

Talandi um að foreldrar gætu skipt því á milli sín að vera heima, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði, þá er rétt að byrja á því að hafa í huga að það eru ekki öll börn svo heppin að alast upp hjá báðum foreldrum sínum. Ætli það sé ekki handleggur fyrir einstæða foreldra að gera allt í senn, að ala upp börnin og afla heimilinu tekna til framfærslu, þannig að þar mundu nú vandast mjög málin.

Ég held að miklu nær sé að líta til þess að gera umbætur á fæðingarorlofskerfinu. Það þarf að sjálfsögðu að lengja, a.m.k. í það ár sem það er á hinum Norðurlöndunum, ég held án undantekninga, og gera réttinn til töku þess mun sveigjanlegri en hann er í dag. Það getur breytt miklu fyrir fyrstu tvö til þrjú árin og aukið möguleika foreldra á að samræma þá uppeldi og umönnun barnanna og vinnu og svo auðvitað þarf að gera mikið átak í því að atvinnulífið á Íslandi aðlagi sig að högum fjölskyldnanna ekki síður en öfugt. Sveigjanlegur vinnumarkaður eru mikil tískuorð í Evrópurétti og -umræðum og það byggir á þeirri trú eða minnimáttarkennd Evrópumanna að þeir væru að tapa í samkeppninni við Bandaríkin um hagvöxt og hækkuð laun vegna þess að vinnumarkaðurinn evrópski væri of ósveigjanlegur. Ekki held ég að því verði fundinn staður þegar betur er að gáð, alla vega hljóta menn að verða að viðurkenna að þeir geta líka farið offari í þá áttina að ætla öllu samfélaginu, fjölskyldunni og barnauppeldi og öðru slíku, að ráðast í einu og öllu af því sem hentar hagsmunum fyrirtækjanna sem oft eru býsna skammsýnir og blindir. Staðreyndin er sú að framsýnir atvinnurekendur og þeir sem átta sig rétt á hlutunum snúa þessu gjarnan við og leggja mikla áherslu á að umgjörðin utan um fjölskyldurnar og stoðþjónustan við þær sé sem allra öflugust þannig að líkurnar aukist á ánægðum og heilsuhraustum starfsmönnum.

Það er ólíku saman að jafna ef maður ber saman viðhorf atvinnurekenda í Noregi til heilsuverndar starfsmanna sinna, íþróttaiðkunar og annarra slíkra hluta, eða því sem gerist hér á landi, því miður, með að vísu vissulega ánægjulegum undantekningum. Það er t.d. mjög algengt í norskum fyrirtækjum að þau greiði kostnað af íþróttaiðkun starfsmanna, skráningargjöld í viðurkenndar keppnir og greiði jafnvel endurnýjun á reiðhjólum þeirra svona á tveggja ára fresti, megi það verða til þess að ýta undir að þeir komi hjólandi í vinnuna því að það sýnir sig að þeir sem ástunda líkamsrækt og eru í góðu formi eins og sagt er eru miklu áreiðanlegri starfsmenn, hafa minni frátafir vegna veikinda o.s.frv. En ekki meira um þetta að sinni.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hér var rætt af hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Jónínu Bjartmarz og reyndar fleirum. Það lýtur að spurningunni um skólaskylduna. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að ræða það mál og skoða það í samhengi. Ég benti bara á í minni framsöguræðu að þetta þarf ekki endilega að fara saman þó að það sé eðlilegt að menn vilji skoða það. Við leggjum okkar tillögu þannig upp að hún er mjög opin. Hún gerir ráð fyrir því að þetta geti allt saman komið í áföngum og eitt sé ekki endilega skilyrði fyrir öðru. En maður getur mjög vel séð það fyrir sér að þetta þróist þannig að fyrst komi gjaldfrelsi til sögunnar á efsta árinu fyrir fimm ára börnin og í tengslum við það, kannski eftir ákveðna aðlögun, gæti síðan það ár í leikskólanum orðið skólaskylt innan einhverra marka, t.d. sex tímar á dag eða eitthvað því um líkt. Ég er algjörlega sammála því að það á ekki að færa það skólastig þar með upp til grunnskólans heldur á það að vera hluti af leikskólanum og ég held reyndar að þeim mun minni breyting og minni mörk sem eru þarna á milli þeim mun betra. Staðreyndin er sú að þau hafa mjög verið að hverfa með þeim áherslum sem nú eru lagðar í leikskólastarfinu. Síðasta árið fer að talsverðu leyti í að undirbúa breytinguna og undirbúa börnin undir þátttökuna í grunnskólanum og þar sem þetta er nú í sama hverfinu er því gjarnan hagað þannig að börnin af leikskólanum fara t.d. nokkrum sinnum í heimsókn í grunnskólann árið áður en þau færast þangað þannig að þau eru orðin þar kunnug.

Í það heila tekið vil ég láta það koma hér fram hafi ég ekki sagt það beint eða með berum orðum í framsöguræðu minni að ég er eindregið þeirrar skoðunar að í leikskólum landsins sé almennt unnið frábært starf og það sé til mikils sóma hvernig það hefur verið að byggjast upp og eflast. Ég er í þeirri stöðu að veturinn í vetur eða árið í ár er sennilega fyrsta árið af sautján í röð þar sem ég er ekki foreldri barns í leikskóla. Ég hef haft mikla ánægju af því að fylgjast með starfinu þar sem faðir fjögurra barna sem öll hafa gengið upp í gegnum leikskólann. Á þeim tíma hefur skólinn þróast heilmikið og tekið framförum. Hann hefur öðlast fastari sess sem hluti af skólakerfinu. Úrræðunum hefur stórfjölgað og hlutfall þeirra sem nýta sér þjónustuna hækkað þannig að það er að verða almenna reglan en ekki undantekningin eins og þetta var og þarf ekki að fara nema tíu til fimmtán ár aftur í tímann til að finna það að leikskólapláss voru ýmist fá eða jafnvel engin í fjölmörgum sveitarfélögum.

Ég held að þetta þurfi að sjálfsögðu að skoðast í samhengi. Það er rétt og skylt að gera um það kröfu að litið sé til samhengis hlutanna allt frá því að fæðingarorlofinu lýkur, sem ég endurtek að þurfi að lengja, hvað taki við, hvaða ástand eða fyrirkomulag verði þá á hlutununum næstu eitt til þrjú árin og hvernig svo efri hluti leikskólans er.

Það er mikill misskilningur að andi þessarar tillögu feli það í sér að þvinga öll börn inn í leikskólana allt niður í sex eða níu mánaða aldur. Það er alls ekki um neitt slíkt að ræða. Þess vegna höfum við einmitt farið mjög varlega í að tala þarna um skyldu heldur nálgumst þetta meira út frá að skilgreina rétt sem er þá valfrjáls að því marki sem ekki yrði um einhverja lengingu skólaskyldu niður á leikskólastigið að ræða, rétt foreldra til tiltekinnar gjaldfrjálsrar þjónustu á þessu sviði. Auðvitað þarf það svo að haldast í hendur við skyldur sveitarfélaganna eða þær kvaðir sem á sveitarfélögin eru lagðar í þessu verkefni sem öll sveitarfélög hafa metnað til og vilja til að standa að með myndugum hætti.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu og þann stuðning við málið eða undirtektir sem það hefur fengið og hér hefur komið ágætlega fram í umræðunni. Auðvitað hefði verið ánægjulegt ef hæstv. ráðherrar mennta- og félagsmála hefðu getað tjáð sig í leiðinni. En það má ganga eftir afstöðu þeirra við betra tækifæri og ég trúi því nú að dropinn muni hola mjög steininn í þessu máli. Undirtektir við það hafa stóraukist frá því að við hreyfðum því fyrst í kosningabaráttu fyrir tveimur liðnum árum og gerðum það að baráttumáli okkar á landsvísu. Ég held að þannig þurfi að nálgast málið. Það þarf að bjóða sveitarfélögunum upp á slíkt samstarf við ríkið, annars mun þetta verða vanmegnugt og ekki nema tilviljanakennt í hvaða mæli verður farið inn á þessa braut hjá einstökum sveitarfélögum. Hér er því um alveg dæmigert samstarfsverkefni þeirra að ræða.

Ég man ekki, herra forseti, hvort ég tók það fram sem væntanlega á ekki að þurfa, að við leggjum til að þetta mál fari til félagsmálanefndar. Við höfum sett það upp að formi til sem mál sem við nálgumst frá sjónarhóli sveitarfélaganna sem slíkra og sendum það til þeirrar fagnefndar þó að það sé auðvitað að sjálfsögðu líka uppeldis- og menntamál, enda er gert ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið eigi aðild að nefndarstarfinu.