131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:48]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tekur þátt í umræðunni með okkur því ég sé að í þau þrjú skipti sem málið hefur verið hér til umræðu áður, a.m.k. samkvæmt þeim gögnum sem ég prentaði út af netinu, hefur hann ekki tekið þátt í umræðunni fyrr.

Það veldur alltaf vonbrigðum þegar menn sem þekkja betur gera sér upp fáfræði og halda því fram blákalt að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson veit ósköp vel að það sem við erum að ræða hér hefur ekkert að gera með áritun endurskoðenda. Það hefur ekkert að gera með bókhaldsreglur. Það hefur með það að gera á hvaða hátt hráefnisverð er ákveðið og á hvaða hátt það er fært inn í bækur fyrirtækjanna.

Getur hv. þingmaður þá útskýrt fyrir okkur hvernig á því stendur að flestallar fiskvinnslur sem reka sína eigin útgerð eru með hráefniskostnað samkvæmt ársreikningum sínum sem er í kringum 50–55%? Flestallar vinnslur sem kaupa hráefni á opinberum fiskmörkuðum á Íslandi eru með hráefniskostnað á bilinu 80–85%. Er það vegna þess að þær vinnslur sem kaupa á markaði eru að selja svo ódýrt að hráefnið verður svona hátt hlutfall af söluverði? Ég held ekki og ég held að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson viti ósköp vel að það er ekki skýringin. Skýringin er sú að hráefniskostnaðurinn á hvert kíló hjá þeim sem kaupa á markaði er miklu hærri en hjá þeim sem færa ákveðið kaupverð inn í bækur sínar frá sinni eigin útgerð. Ástæðan er öllum ljós og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson veit hana eins vel og ég. Ástæðan er sú að fiskverð kemur til skipta, fiskverð ákvarðar laun sjómanna. Þeir sem hafa bæði útgerðina og fiskvinnsluna á sinni hendi geta því fært frá útgerð yfir til fiskvinnslu og gera það samkvæmt þeim tölum sem við höfum upp úr opinberum ársreikningum. Hráefnishlutfall fyrirtækja í eigin útgerð og hráefnishlutfall fyrirtækja sem kaupa á markaði er gjörólíkt á Íslandi. Það veit hv. þingmaður.