131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:38]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram sem ég sagði um hv. þingmann, þ.e. hvaða sjónarmið hann í grófum dráttum hefur til fiskveiða og sókn í fiskstofna.

En það er annað athyglisvert um tillögur hans í þeim efnum. Flestar tillögur hans hafa gengið út á að reyna að styrkja kvótahlut þeirra báta sem sterkastir eru í hans eigin kjördæmi. Benda mætti á það að þær tillögur sem hann hefur helst mælt fyrir hafa verið í þá áttina. Ef hv. þingmaður telur pólitísk afskipti, af því hverjir helst megi veiða fiska og hverjir ekki, vera í samræmi við heilbrigða samkeppni og sérstaklega eftirsóknarvert þá er ég honum fullkomlega ósammála um það.

En ef hv. þingmaður ætlar að ræða efni tillögu sinnar hér á eftir þá hlakka ég til að hlusta á lýsingar hans á þeim rekstrargrundvelli sem sú fiskvinnsla hefur sem hann ætlar að svipta rétti til veiða.