131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Efling fjárhags Byggðastofnunar.

468. mál
[19:08]

Flm. (Herdís Á. Sæmundardóttir) (F):

Frú forseti. Komið hefur fram að hæstv. iðnaðarráðherra hefur fjarvistarleyfi í dag en ég átti hins vegar ekki annan kost en að flytja mál mitt núna í dag.

En ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. Ég átti nú ekki von á því að hv. þm. Pétur Blöndal væri sammála mér um Byggðastofnun og heldur ekki um byggðastefnu almennt. Engu að síður þakka ég ræðu hans og hefði gjarnan viljað taka lengri umræður, ekki bara um Byggðastofnun heldur einnig um stoðkerfi atvinnulífsins almennt og sérstaklega hvað varðar landsbyggðina.

Ég vil jafnframt þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar og þann stuðning sem málið fær af hennar hálfu.