131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Landssími Íslands.

360. mál
[12:03]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um annað en að Landssími Íslands fari að lögum.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson ber fram fyrirspurn sama efnis og hann hefur áður gert. Þeirri spurningu var skriflega svarað á vorþingi 2004, og skyldum spurningum sömuleiðis. Megininntakið sem fram hefur komið í þeim svörum af minni hálfu er að í gildi eru reglugerðir og lög um fjarskipti og um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja. Ráðuneytinu sem ég ber ábyrgð á er ekki kunnugt um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann viðhefði fjárhagslegan aðskilnað milli tiltekinna rekstrarsviða.

Vegna þess að þessi spurning er aftur fram komin tel ég ástæðu til að ítreka fyrri afstöðu mína sem er sú að fjármálaráðuneytið telur ekki eðlilegt að það svari fyrir stefnu eða ákvarðanir Landssímans í einstökum málum, jafnvel þótt fyrirtækið sé að langmestu leyti í eigu ríkisins. Sú afstaða grundvallast á því í fyrsta lagi að félagið er hlutafélag að einkarétti og er sem slíkt skráð á íslenskum hlutabréfamarkaði, og hlutabréf í félaginu ganga kaupum og sölum í Kauphöll Íslands.

Í öðru lagi vegna þess að þrátt fyrir að íslenska ríkið eigi ráðandi hlut í Landssímanum hefur ríkið sem eigandi ekki áhrif á daglega stjórn þess né svarar fyrir stefnu þess, heldur kýs til þess sérstaka stjórn sem svarar fyrir stefnu félagsins og tekur ákvarðanir um málefni þess og ber á því stjórnunarlega ábyrgð.

Í þriðja lagi er það svo að í krafti stærðar og markaðsráðandi stöðu þessa félags hvílir á því margvísleg lagaskylda samkvæmt fjarskiptalögum, samkeppnislögum, lögum um verðbréfaviðskipti og fleiri lögum. Í þessum lögum er jafnframt mælt fyrir um eftirlitsskyldu ýmissa aðila gagnvart félaginu. Það er hlutverk viðeigandi stofnana eins og Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar að hafa eftirlit með aðilum í samkeppni á fjarskiptamarkaði, og Kauphallar Íslands að hafa eftirlit með aðilum sem skráðir eru á verðbréfamarkaði.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd fjarskiptamála á Íslandi samkvæmt fjarskiptalögum auk þess sem stofnuninni ber að stuðla að samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Samkeppnisyfirvöld hafa með höndum að framfylgja bannreglum samkeppnislaga, að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja og óréttmætum viðskiptaháttum og stuðla að auknu gagnsæi markaðarins. Ljóst er að fyrirtækið, Landssíminn, hefur talið sig bundið af ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar, samkeppnisyfirvalda og annarra eftirlitsstofnana sem beint hefur verið til þess og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að framangreindir aðilar hafi gert athugasemdir við núverandi framkvæmd Landssímans á lögum þeim eða reglum sem um þetta mál gilda.