131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:20]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, er spurt:

Hver fer með umboð ríkisins við sölu ríkiseigna, af hvaða reglum er hann bundinn og til hvaða sjónarmiða ber honum að líta þegar ákvörðun er tekin um málsmeðferð og hvernig að sölunni skuli staðið?

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að ekki sé heimilt að selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Samkvæmt 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, fer fjármálaráðuneytið með mál er varða eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna nema lagt sé til annars ráðuneytis.

Um sölu ríkiseigna gilda ákvæði 3. mgr. 70. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, þar sem segir að Ríkiskaup ráðstafi eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðuneytisins.

Í 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er að finna ákvæði um að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimildar í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma eftirfarandi eignir:

1. Fasteignir.

2. Eignarhluta í félögum.

3. Skip og flugvélar.

4. Söfn og safnhluti.

5. Aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa og ekki falla undir töluliði 1–4.

Á grundvelli laga um fjárreiður ríkisins og laga um opinber innkaup hefur fjármálaráðuneytið sett reglugerð nr. 206/2003, um ráðstöfun eigna ríkisins. Í reglugerðinni er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem gildir við sölu á eignum ríkisins og hvernig að sölunni skuli staðið. Er vísað til hennar varðandi frekari upplýsingar um þá málsmeðferð sem gildir um ráðstöfun slíkra eigna.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er spurt:

Gilda samræmdar reglur um sölu ríkiseigna eða sérstakar reglur í hverju tilviki? Er misjafnt hvaða aðferð er notuð eftir því hver annast sölu?

Við þessari spurningu vil ég segja það að þau lög sem vísað er til hér að framan ásamt reglugerð 206/2003, um ráðstöfun eigna ríkisins, sem sett var með stoð í þeim eru um þær almennu réttarheimildir sem gilda um ráðstöfun á eignum ríkisins. Í sérlögum kunna hins vegar að vera sérstakar heimildir um ráðstöfun tiltekinna eigna, sbr. jarðalög nr. 81/2004, þar sem sérstaklega er mælt fyrir um sölu ríkisjarða og málsmeðferð við slíka sölu. Einnig hefur verið ákveðið að einkavæðingarnefnd fari með sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum í samráði við fjármálaráðherra og þann ráðherra sem fer með eignarhlutann. Þrátt fyrir þetta gilda þó almennt þau meginsjónarmið og meginreglur sem koma fram í áður tilgreindri reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins.

Þau meginsjónarmið eru í örstuttu máli þau að í fyrsta lagi sé fyrir hendi lagaheimild til sölunnar enda sé eignin þess eðlis að gerð sé krafa um það í lögum. Í öðru lagi er sett lágmarksverð á eignina sem venjulega er fundið með verðmati og í þriðja lagi að hún sé auglýst til sölu á opinberum vettvangi þannig að allir eigi þess kost að bjóða í hana. Eignin er að því búnu seld hæstbjóðanda enda sé fram boðið verð yfir ásettu lágmarksverði.

Í þriðja lagi er spurt:

Er í undirbúningi lagasetning um hvernig fara skuli að við sölu ríkiseigna?

Svarið er það, eins og áður er komið fram af minni hálfu hér, að slík löggjöf er þegar fyrir hendi og ekki í undirbúningi önnur lagasetning um þetta efni.