131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:27]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við verðum að vanda okkur þegar við seljum ríkiseignir.

Mig langaði til að nota tækifærið hér til að vekja athygli á svari við fyrirspurn sem ég fékk í síðustu viku, fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um það hvernig helmingsandvirði af söluverðmæti Steinullarverksmiðjunnar hefði verið varið á sínum tíma, 105 millj. kr. Samkvæmt lagabreytingu frá árinu 2002 um Steinullarverksmiðjuna átti að verja 105 millj., þ.e. helmingnum af söluverðmætinu, til samgöngubóta eða annarra verkefna í sveitarfélögunum.

Í svarinu kemur í ljós að helmingi af þessu andvirði, þ.e. 105 millj., var varið í Norðvest. til fiskeldisrannsókna, annars vegar 70 millj. til fiskeldisrannsókna við Hólaskóla og síðan 35 millj. í barraeldi, þ.e. eldi á fisktegund sem sýnt er að ekki er hægt að ala hér með hagkvæmum hætti. Þessum peningum var kastað í eldisstöð sem var gjaldþrota að því virðist, virðulegi forseti, til þess að skera lánardrottna niður úr snörunni.