131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.

290. mál
[13:27]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum því ég gerði ráð fyrir að aðeins lengra hefði miðað í málinu. Fram kom í máli hæstv. ráðherra að farið er að gera þessar húðflúrsaðgerðir á stofum undir eftirliti lýtalækna og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki full ástæða ef það er gert að Tryggingastofnun taki þátt í að greiða fyrir það þegar þetta er gert undir eftirliti lækna eins og viðgengst erlendis?

Ég veit að þær konur sem ég var í sambandi við fyrir þremur árum hafa gefist upp á biðinni og fóru einmitt þessa leið en þær þurftu að standa allan straum af kostnaði sjálfar sem er þó nokkuð mikill. Þetta kostar rúmar 25 þús. kr. en aðgerð lýtalæknis við að byggja upp brjóstvörtu er yfir 50 þús. kr. á spítala. Það væri því hagkvæmt fyrir kerfið að greiða fyrir þetta ef það er undir eftirliti læknis.

Ég spyr hæstv. ráðherra einnig að því hvort það verði ekki mögulegt þegar frumvarp um græðara verður orðið að lögum þar sem það heimilar greiðslu fyrir verk þeirra á stofnun ef læknir kallar þá til.

Síðan vil ég taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að þetta er ekki fegrunaratriði, þetta er lýtaaðgerð. Þetta getur haft mjög alvarleg sálræn áhrif á konu, áhrif á hennar andlegu heilsu ef mistekst með svona aðgerð. (Gripið fram í.) Það er atriði að þetta líti vel út og verði gert sem best og ég veit að það hefur verið mun árangursríkara þegar þær hafa farið í húðflúrsmeðferðina en þá leið sem viðgengst á sjúkrahúsum með húðflutningana. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að beita sér að nýju við að þetta verði tekið upp.