131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:32]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að draga úr offitu barna:

1. Eru uppi áform af hálfu ráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr offitu meðal barna?

2. Kemur til greina að grípa til aðgerða sem takmarka auglýsingar á svokölluðu ruslfæði sem beint er að börnum?

Hæstv. forseti. Frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur það ánægjulega gerst að sett hefur verið á laggirnar nýtt verkefni Lýðheilsustöðvar undir fyrirheitinu „Allt hefur áhrif, einkum við sjálf“ sem mun beinast að því mikilvæga starfi að reyna að snúa við þeirri þróun sem hefur orðið hvað varðar sífellt meiri þyngdaraukningu hjá börnum og í raun þjóðinni allri en það á sérstaklega að taka á þyngdaraukningu barna í þessu mikilvæga verkefni.

Það er alveg ljóst að farið er að tala um þyngdaraukningu hinna iðnvæddu þjóða sem næsta faraldur því svo fljótt hefur það gerst að offita er orðin mikið vandamál hjá fullorðnum og nú hjá börnum. Það verður að grípa þarna inn í með mjög markvissum hætti og það verður að mínu mati að vera miklu meira en eingöngu það að ráða starfsmann til þessa verkefnis hjá Lýðheilsustöð. Þetta þarf að vera langtímamarkmið. Þetta þarf að beinast að mörgum þáttum, eins og segir í ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands, hæstv. forseti, m.a. verðlækkun hollustuvara, bættri merkingu matvæla, almenningsfræðslu, aukinni kennslu í næringarfræði og aukinni hreyfingu í leik- og grunnskólum, stuðningi við menningartengda hreyfingu barna og unglinga, svo sem ýmiss konar dans, ratleiki o.fl., aukinni áherslu á almenningsíþróttir og aðstöðu almennings til útivistar og annarrar hreyfingar.

Margt af því sem kemur fram í ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands frá því í nóvember sl. er okkur og þjóðinni að kostnaðarlausu en margt kostar fjármagn og þá sérstaklega hjá sveitarfélögunum

Ég vil aðeins koma að seinni spurningunni sem snýr að auglýsingunum. Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga frá Samfylkingunni varðandi auglýsingar á svokölluðu ruslfæði en í löndunum í kringum okkur, m.a. í Bretlandi og Danmörku, er verið að setja á strangar takmarkanir varðandi auglýsingar sem snúa að börnum hvað varðar ruslfæði.