131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:12]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra lýtur að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í nóvember síðastliðnum var haldin ráðstefna í Reykjavík um þetta á vegum Alþjóðahússins. Þar komu til leiks flestir sem hafa verið að starfa að og vinna að íslenskukennslu fyrir útlendinga í íslensku samfélagi undanfarin ár. Bæði fyrir þá ráðstefnu og eftir hana heyrum við eða heyri ég af og til ákveðnar umkvartanir um hvernig staðið er að íslenskukennslunni eða kannski eiginlega ábendingar um hvað betur mætti fara í íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Það sem ég sérstaklega beini til hæstv. dómsmálaráðherra í þessu er íslenskukennslan sem er skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis. Ég tel að það sé sá hluti íslenskukennslunnar í íslensku samfélagi sem fyrst og fremst heyrir undir hæstv. dómsmálaráðherra. Þetta var á sínum tíma gert að skilyrði fyrir búsetuleyfinu. Það voru færð rök fyrir því bæði í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar og eins í framsöguræðu þáverandi formanns nefndarinnar. Í henni var m.a. gerð grein fyrir því að íslenskukunnátta sé forsenda þess að menn geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi og það sé mikilvægt að útlendingar sem hyggjast setjast að á Íslandi aðlagist íslensku samfélagi sem fyrst og það séu ekki hagsmunir bara útlendingsins sjálfs heldur líka hagsmunir samfélagsins í heild. Meiri hlutinn í nefndaráliti sínu og formaður meiri hlutans í ræðu sinni lagði áherslu á að tryggt yrði nægilegt framboð á námskeiðum í íslensku um land allt og jafnframt á það að gjaldið fyrir námskeiðin yrði hóflegt.

Á þessum tíma þegar mælt var fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndarinnar gat formaður allsherjarnefndar þess líka að fram hefðu komið ábendingar um að fram að þeim tíma hafi ekki verið nægilegt framboð af þessum námskeiðum og lagði áherslu á það að með því að við í meiri hlutanum vildum lögbinda þetta sem skilyrði fyrir búsetuleyfi þá værum við að sýna hvað okkur væri mikil alvara í því að tryggja að Íslendingar næðu sem bestum tökum á íslenskunni og líka að þá væri komin ákveðin skylda. Þá væri komin ákveðin skylda á stjórnvöld að stuðla að því að námsefnið væri nægjanlegt.

Ábendingarnar eru ýmsar um það sem betur mætti fara. En vegna þessa máls beini ég til hæstv. dómsmálaráðherra fyrirspurnum um framkvæmd lögboðinna námskeiða, hvort framboðið sé fullnægjandi um land allt, hvort það sé nægilegt framboð á sérmenntuðum kennurum og á námsefni sem hæfi ólíkum þörfum útlendinga og loks hvort mat hafi verið lagt á það hvort 150 kennslustundir skili þeim árangri sem að er stefnt.