131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók hérna sem dæmi mál sem falla niður eða eiga ekki lengur möguleika á gjafsókn ef við breytum lögunum eins og hæstv. dómsmálaráðherra leggur til. Það sem ég hef fyrir mér í því er grein sem Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður skrifaði í tímaritsgrein, í Úlfljót árið 1994, eftir að hafa starfað í gjafsóknarnefnd þá um nokkurt skeið. Málin sem tekin eru sem dæmi í málflutningi mínum í þessari umræðu eru tekin beint upp úr þeirri tímaritsgrein og Lögmannafélagið vitnar í þá tímaritsgrein í umsögn sinni til allsherjarnefndar. Ég tel því mig hafa fullgild rök fyrir því að hér sé verið að fella niður heimild gjafsóknar í málum sem hafi verulega almenna þýðingu, þ.e. málum sem ekki varða einstaklinginn heldur þeim sem hafa verulega almenna þýðingu.