131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 1.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér leikur hugur á að inna hæstv. starfandi utanríkisráðherra eftir því hver verði viðbrögð íslenskra stjórnvalda varðandi umsókn fyrirtækisins Iceland Food í Bretlandi um vörumerkið Ísland. Þetta fyrirtæki hefur sent inn umsókn, fyrst hjá bresku einkaleyfastofunni og síðan þeirri evrópsku, sækir um að færa mjög út kvíarnar undir þessu vörumerki og taka inn eina sjö vöruflokka til viðbótar þeim sem fyrirtækið hefur þegar skráð tengt nafni sínu og einnig þjónustustarfsemi. Frestur til að andmæla með formlegum hætti af hálfu Íslands rennur út síðar í þessum mánuði og ég spyr hvort ekki sé öruggt að íslensk stjórnvöld muni andmæla því mjög harðlega að eitt erlent fyrirtæki reyni með þessum hætti að gera nafn landsins að vörumerki sínu.

Ég held að það væri ákaflega óheppilegt og ég vil í raun ganga lengra og spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki megi treysta því að stjórnvöld beiti öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir að þetta verði, þar með talið ef á þarf að halda með málaferlum. Í ljósi þess að nú liggur fyrir að eignarhald þessa fyrirtækis er að færast í hendur innlendra aðila spyr ég einnig hvort ekki sé mögulegt að reyna að leita eftir samkomulagi við eigendur þessa fyrirtækis um að fallið verði frá umsókninni og frekar farið í gagnstæða átt, þ.e. að fyrirtækið láti af því að reyna að kynna söluvöru sína og þjónustu undir þessu nafni sem ég held að sé ákaflega óheppilegt fyrir íslenska framleiðendur almennt og hagsmuni Íslands sem ferðamannalands eða hvar sem borið væri niður í sjálfu sér.