131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:40]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ef til vill má skýra þennan vandræðagang nefndarinnar og sérstaklega nú eftir áramótin með því að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur verið upptekinn. Hann hefur verið að sinna störfum hæstv. forsætisráðherra sem hefur verið í fríi langdvölum, verið á flakki um landið og eitt og annað. Hann hefur verið upptekinn maður.

Hæstv. landbúnaðarráðherra telur að allt leiki í lyndi hvað varðar landbúnaðinn. Ég ætla að benda honum á að blikur eru á lofti. Í nýjasta Bændablaðinu má m.a. lesa að bændur hafa áhyggjur og þeir hafa sérstakar áhyggjur af verkum Framsóknarflokksins. Það eru verkin hvað varðar breytt skipulag í rafmagnsmálum og ef Framsóknarflokkurinn er í vandræðum með að færa einhver mál á dagskrá landbúnaðarnefndar væru þau mál einmitt við hæfi.

Svo má einnig minnast á mál sem varðar útræðisrétt strandjarða. Er til skammar að Framsóknarflokkurinn skuli ganga þvert gegn samþykktum eigin flokks og stefna bændum í dómsali til að ná fram samþykktum flokksins um að virða útræðisréttinn.