131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:58]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans þar sem aðallega er rætt um hvort grunnkerfið eigi að seljast með fyrirtækinu eða vera sérfyrirtæki, svipað og gert er í raforkunni.

Þegar litið er til grunngerðar íslensks þjóðfélags, þ.e. infrastrúktúrs sem kallað er, þá verður fyrst fyrir flutningur á almennum vörum, þ.e. siglingar og aðallega vegakerfið. Síðan er það orkuflutningur af ýmsu tagi, raforkuflutningur og heitavatnsleiðslur, sem sumar hverjar eru mjög langar eins og frá Þingvöllum til Reykjavíkur. Olíuflutningar með bifreiðum eru í einkaeigu og síðan eru það gagnaflutningar sem hér hafa verið til umræðu og tengjast því að Síminn hefur yfir ákveðnu kerfi að ráða til að flytja gögn, ljósleiðara og koparleiðslukerfi.

Þegar við ræddum um markaðsvæðingu raforkukerfisins þótti eðlilegt að taka kerfið út úr, þ.e. að eitt fyrirtæki sæi um flutning á orku. Þar er líka nokkuð stöðluð tækni í gangi, þ.e. við raforkuflutning. Þá er ég ekki að tala um olíuflutninga eða það að flytja heitt vatn. Það er ekki í augsýn ný tækni sem mælir gegn því að hafa eina staðlaða lausn á flutningi á raforku.

Þegar við tölum um gagnaflutninga er hins vegar óskaplega mikið að gerast, frú forseti. Fyrir tíu árum held ég að ekki hefði hvarflað að nokkrum manni að selja leyfið með Símanum vegna þess að þá var bara ein lausn sem var koparinn. Reyndar örlaði þá á nýrri lausn sem var ljósleiðarinn sem Síminn sá líka um.

Núna er, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom svo ágætlega inn á í ræðu sinni áðan þegar hún kvartaði undan því að stjórnarþingmenn hlýddu ekki á umræðuna, mjög mikil gerjun í gangi, sérstaklega í gagnaflutningum. Stærðfræðileg þjöppun gagna er í mikilli þróun. Við erum með ljósleiðarakerfi. Við erum með ADSL-kerfi í koparnum. Við erum með kerfi sem flytur gögn með tækni sem notuð er í gervitunglum. Það er eiginlega allt á floti í þeim efnum og gerjun mikil. Það er ekki á hreinu og liggur ekki ljóst fyrir hvað verður ofan á. Þess vegna erum við í allt annarri stöðu í flutningum á gögnum núna en t.d. í raforkunni. Það er ekkert víst að það kerfi sem Síminn býr yfir og situr yfir muni sigra í þessari þróun tækninnar.

Svo gleymdi ég að nefna, frú forseti, dýrustu eðlisfræðitilraun Íslandssögunnar, þ.e. tilraunin sem Orkuveita Reykjavíkur fór út í við að dreifa gögnum eftir venjulegu raforkukerfi. Það er afskaplega áhugaverð eðlisfræðitilraun en mjög dýr og því miður mistókst hún. Hún kostaði Reykvíkinga milljarða.

Núna alveg síðustu daga heyrir maður af netsímum þar sem hægt er að hringja ókeypis milli landa og hefði það nú einhvern tíma þótt frétt. Það er sem sagt óskaplega mikil gerjun í gangi í þessum efnum. Þess vegna held ég að raforkuflutningarnir og gagnaflutningarnir séu ekki sambærilegir og að í lagi sé að selja kerfið með Símanum vegna þess að það muni örugglega koma einhver ný tækni innan mjög stutts tíma sem verður bæði miklu ódýrari og veitir Símanum samkeppni.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom einmitt inn á það að samkeppni yrði erlendis frá í gegnum gervitungl. Það er bara akkúrat málið. Landssíminn eða Síminn mun ekkert verða samkeppnislaus með sitt kerfi. Það verður samkeppni erlendis frá.

Í fólki togast alltaf á stöðnun og samkeppni. Á að vera ein matvöruverslun fyrir allt landið á vegum ríkisins eða fjöldamargar litlar búðir. Auðvitað eru fjöldamargar litlar búðir miklu dýrari lausn. Það er náttúrlega alveg á hreinu. Það er miklu ódýrara að hafa bara eina matvöruverslun fyrir allt landið. En það er svo merkilegt með samkeppnina að hún nær niður verðinu í dýrari lausninni og þess vegna hafa allar þjóðir valið samkeppni þar sem hægt er að koma henni við. Það sem við erum að horfa á hér í sambandi við gagnaflutninga er einmitt dýrari lausn sem veldur samkeppni og mun knýja fram lægsta verð fyrir neytendur þegar fram líða stundir. Ég er alveg sannfærður um það. Þar fyrir utan eru þegar komnar fram mjög ódýrar lausnir fyrir fólk t.d. við að hringja til útlanda.

Þegar maður horfir á alla þessa þætti tel ég vera allt í lagi að selja Landssímann með kerfinu. Þar fyrir utan eru menn náttúrlega búnir að setja skilyrði um að hann verður að veita samkeppnisaðilum aðgang að kerfinu á kostnaðarverði þannig að menn eru búnir að reyna að leysa það vandamál og sumir telja að það sé bara þokkalega leyst. Ef aðrir kæmu með annað kerfi við hliðina á þá yrðu þeir að veita Símanum aðgang að sínu kerfi á kostnaðarverði.

Þar sem við horfum fram á svona mikla þróun og mikinn hraða þá held ég að vel sé þess virði að selja Landssímann með þessu kerfi vegna þess að nýjar lausnir munu koma sem veita þessu kerfi samkeppni, hvort sem það verða gervitungl frá útlöndum eða gervitunglalausnir á landi sem er mjög ódýr lausn líka. Það eru margir aðilar í þessum geira. Landsvirkjun er að vinna að kerfi, Orkuveita Reykjavíkur er að vinna að kerfi, Og Vodafone er með kerfi og Síminn er með sitt kerfi. Við erum því með mörg kerfi og þó að hægt sé að færa rök fyrir því að uppbygging á þeim verði dýrari þá á einmitt samkeppnin að pressa fram lægsta verðið fyrir neytendur.